Handbolti

Síðan fæ ég högg beint í smettið

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Gísli Þorgeir átti góðan leik í kvöld.
Gísli Þorgeir átti góðan leik í kvöld. EPA-EFE/Khaled Elfiqi.

Gísli Þorgeir Kristjánsson átti mjög fínan leik er íslenska liðið vann Marokkó með átta marka mun, 31-23. Hann fékk nokkuð þungt högg í andlitið sem honum fannst ekkert spes.

Gísli Þorgeir skoraði fimm mörk ásamt því að fá einn á lúðurinn sem leiddi til þess að leikmaður Marokkó fékk rautt spjald, eitt af þremur sem mótherjar Íslands fengu í dag.

„Sigurinn, að sjálfsögðu. Þetta var mjög erfitt í byrjun, við vissum að það myndi taka smá tíma að komast almennilega inn í leikinn. Við höfðum séð á fundum að lið eru í bölvuðu basli gegn Marokkó, Portúgal voru til að mynda að tapa með fimm í hálfleik og komust ekki í gang fyrr en eftir 40 mínútur gegn þeim,“ sagði Gísli Þorgeir við RÚV beint eftir leik um hvað hefði verið mikilvægast í leik kvöldsins.

Hann hélt svo áfram.

„Að leiða með fimm mörkum í hálfleik var mjög gott. Mér fannst við gera þetta ágætlega miðað við að Marokkó er alls ekki jafn auðveldur mótherjir og margir halda.“

Marokkó gerði sitt besta til að taka Gísla Þorgeir úr umferð en hann var ánægður með hvernig liðið leysti það.

„Það er þetta sem handbolti snýst oft um, þetta er oft á tíðum skák. Mér fannst við leysa þetta mjög vel. Náðum að leysa þetta þannig að Viggó (Kristjánsson) náði að komast einn á einn gegn sínum manni.“

Að lokum var Gísli Þorgeir spurður út í höggið sem hann fékk.

„Ég er bara að keyra upp í venjulega fintu og fæ síðan högg beint í smettið. Ég veit ekkert hvað gerðist eftir það eða hvert boltinn fór. Man eiginlega bara að þetta var ekkert spes,“ sagði Gísli Þorgeir Kristjánsson að lokum við RÚV að loknum átta marka sigri Íslands gegn Marokkó.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×