Erlent

Sögð hafa stolið tölvu Pelosi og ætlað að afhenda hana Rússum

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Riley June Williams sést hér í þinghúsinu þann 6. janúar síðastliðinn. Myndin er skjáskot úr myndbandi sem ITV News birti.
Riley June Williams sést hér í þinghúsinu þann 6. janúar síðastliðinn. Myndin er skjáskot úr myndbandi sem ITV News birti.

Alríkislögreglan í Bandaríkjunum hefur handtekið konu á þrítugsaldri sem grunuð er um að hafa ætlað að reyna að selja Rússum tölvu í eigu Nancy Pelosi, leiðtoga fulltrúadeildar Bandaríkjaþings.

Hin 22 ára Riley June Williams var handtekin í Pennsylvaníu en hún var í hópi mótmælenda sem ruddust inn í þinghúsið í Washington þann 6. janúar síðastliðinn. 

Lögregla hefur undanfarið elt fólkið uppi og handtekið það. Áhersla var lögð á að hafa hendur í hári Riley vegna þess að hún hafði stolið fartölvu Pelosi af skrifstofu hennar.

Fyrrverandi kærasti Williams er sagður hafa greint lögreglu frá því að hún hefði í hyggju að selja Rússum tölvuna. Afhending tölvunnar hefði að endingu dottið upp fyrir og Williams væri enn með tölvuna í fórum sínum eða hefði „eyðilagt tækið.“ 

Drew Hammill, aðstoðarstarfsmannastjóri Pelosi, greindi frá því á Twitter tveimur dögum eftir innrásina í þinghúsið að tölvu hefði verið stolið af skrifstofu Pelosi. Tölvan hefði þó aðeins verið notuð í kynningar og fyrirlestra. 

Í myndbandi innan úr þinghúsinu þann 6. janúar sést Williams vísa hópi fólks upp stiga, sem leiðir að skrifstofu Pelosi. Búið er að höfða mál á hendur um 200 manns eftir árásina á þinghúsið.


Tengdar fréttir

Mun færri mót­mæla en búist var við

Mun færri hafa mótmælt í höfuðborgum Bandaríkjanna í dag en búist var við. Lögregluyfirvöld hafa verið í viðbragðsstöðu um helginna vegna viðbúinna mótmæla í höfuðborgum ríkjanna 50.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×