Neytendur

World Class hækkar verð í annað sinn á hálfu ári

Eiður Þór Árnason skrifar
Björn Leifsson, einn eigandi World Class, hefur verið mjög gagnrýninn á lokun líkamsræktarstöðva en stöðvar hans fengu að bjóða aftur upp á hóptíma þann 13. janúar.
Björn Leifsson, einn eigandi World Class, hefur verið mjög gagnrýninn á lokun líkamsræktarstöðva en stöðvar hans fengu að bjóða aftur upp á hóptíma þann 13. janúar. Vísir/Egill

World Class hækkaði nýverið verðskrá sína og greiða viðskiptavinir í áskrift nú 8.260 krónur á mánuði fyrir að fá að heimsækja stöðvar fyrirtækisins, í stað 7.870 króna áður.

Er þetta í annað sinn á stuttum tíma sem World Class grípur til verðhækkana en í júlí á síðasta ári hækkuðu stjórnendur líkamsræktarkeðjunnar verð á mánaðarlegri áskrift um 15%, eða úr 6.840 í 7.850 krónur.

Samanlagt hefur verð á mánaðaráskrift nú hækkað um tæpt 21% frá því í júní síðastliðnum. Sömuleiðis hefur verð á venjulegu árskorti í stöðvar World Class hækkað um nær sama hlutfall á tímabilinu. Kostar árskort nú 96.590 krónur í eingreiðslu en var fáanlegt á 79.990 krónur í byrjun sumars. Flestir aðrir liðir í gjaldskrá World Class hafa hækkað um svipað hlutfall.

Tilkynntu ekki hækkunina á vef sínum

Stjórnendur líkamsræktarkeðjunnar gerðu sérstaklega grein fyrir fyrri verðskrárbreytingunni í tilkynningu á vef sínum í sumar en ekki er að sjá að svo hafi verið gert í tengslum við nýjustu verðhækkanirnar.

Í sumar vísuðu forsvarsmenn til þess að verðskrá World Class hafi fram að því ekki hækkað í sex og hálft ár þrátt fyrir hækkun á vísitölu neysluverðs og launavísitölu. Þá sagði Björn Leifs­son, stofn­andi og einn eig­enda World Class á Íslandi, í samtali við mbl.is í júlí það hafa verið óhjá­kvæmi­legt að hækka verð.

Björn og Birgitta Líf Björnsdóttir, markaðsstjóri World Class, gáfu ekki kost á viðtali við vinnslu þessarar fréttar.

Líkamsræktarstöðvar opnuðu á ný í síðustu viku með takmörkunum en þar áður höfðu þær verið lokaðar nær samfellt frá 4. október síðastliðnum. Níutíu starfsmönnum World Class var sagt upp störfum í desember og tóku uppsagnirnar gildi um áramótin. Var um helmingi starfsliðs fyrirtækisins sagt upp á síðasta ári.

World Class hagnaðist um 562 milljónir króna árið 2019. Rekstrartekjur World Class voru tæplega 3,8 milljarðar það ár og nam hagnaðurinn um 80% af heildarhagnaði stærstu líkamsræktarstöðva á Íslandi.

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttir

Vongóður að líkamsræktarstöðvar fái bráðlega að opna: „Þetta er bara tóm helvítis þvæla“

„Við erum að heyra nákvæmlega sama ruglið, aftur og aftur. Það eigi að fara varlega í tilslakanir og annað slíkt. Það er eins og stjórnvöld og sóttvarnayfirvöld beri enga virðingu fyrir fyrirtækjum eða fólkinu í landinu. Við erum algjörlega í þoku með það hvort við megum starfa eða ekki,“ segir Björn Leifsson, eigandi World Class.

World Class hagnaðist um 562 milljónir í fyrra

Líkamsræktarstöðin World Class hagnaðist um 562 milljónir króna í fyrra. Hagnaðurinn nemur um 80 prósentum af heildarhagnaði stærstu líkamsræktarstöðva á Íslandi, World Class, Hreyfingar, Reebok Fitness, Sporthússins og CrossFit Reykjavíkur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×