Fótbolti

Segja að Ólafur Ingi sé hættur hjá Fylki og taki í staðinn við tveimur landsliðum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ólafur Ingi Skúlason hefur spilað með Fylki síðan að hann kom heim úr atvinnumennsku.
Ólafur Ingi Skúlason hefur spilað með Fylki síðan að hann kom heim úr atvinnumennsku. vísir/bára

Knattspyrnusamband Íslands ætlar að slá tvær flugur í einu höggi með því að ráða Ólaf Inga Skúlason til starfa.

Ólafur Ingi Skúlason mun ekki starfa áfram sem aðstoðarmaður Pepsi Max deildar liðs Fylkis þar sem hann er að fara að starfa fyrir Knattspyrnusamband Íslands.

Ólafur Ingi var spilandi aðstoðarþjálfari hjá Fylki síðasta sumar en aðalþjálfarar liðsins voru þeir Atli Sveinn Þórarinsson og Ólafur Stígsson.

Morgunblaðið hefur heimildir fyrir því að Ólafur Ingi hafi látið af störfum sem aðstoðarþjálfari Fylkis og muni þess í stað taka við tveimur yngri landsliðum Íslands.

Ólafur Ingi á að vera að taka við U-19 landsliði karla af Þorvaldi Örlygssyni sem og að þjálfa einnig fimmtán ára landslið kvenna. Lúðvík Gunnarsson var áður þjálfari þess liðs.

Þorvaldur Örlygsson hætti með nítján ára landsliðið á dögunum og er orðinn þjálfari Stjörnunnar við hlið Rúnars Páls Sigmundssonar.

Knattspyrnusambandið á enn eftir að tilkynna um það hver verður þjálfari A-landsliðs kvenna og U-21 árs landsliðs karla. Það hefur verið nóg að gera hjá sambandinu að finna nýja landsliðsþjálfara.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×