Slökkviliðsmenn sem eru að störfum í byggingum Háskóla Íslands eru nú farnir að sjá fyrir endann á aðgerðum á staðnum. Þeir vonast til að lokið verði við að dæla vatni af göngum skólans á næstu klukkutímum.

Það var um eitt leytið í nótt sem Slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu barst tilkynning um að vatn flæddi inn í skólann. Ríflega tvö þúsund tonn af vatni flæddu þá um fimm byggingar skólans eftir að kaldavatnslögn fyrir ofan skólann gaf sig. Sjötíu og fimm mínútur tók að stöðva rennslið úr lögninni. Slökkviliði hefur nú verið að störfum í byggingum Háskóla Íslands í tæpan hálfan sólarhring.

Bernódus Sveinsson aðstoðarvarstjóri hjá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu segir fljótt hafa verði ljóst að um umfangsmikinn leka væri að ræða. „Hér var bara hreinlega allt á floti og bara rosalega mikið vatn. Fljótandi húsgögn og annað þannig að þetta var bara ein risastór sundlaug,“ segir Bernódus.
Í fyrstu var bara ein stöð send á staðinn en fleiri voru kallaðar út um leið og ljóst var hvers eðlis var. „Þegar þeir koma hérna á staðinn þá sjá þeir umfangið á þessu og biðja um frekari aðstoð og önnur stöð er send og með aukinn búnað og hafa verið kannski hérna svona einhvers staðar á bilinu sextán átján manns að vinna í nótt með þann búnað sem við höfum,“ segir Bernódus.