Körfubolti

Nýi maðurinn í vélinni og Helgi upptekinn í vinnu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Darri Freyr Atlason og strákarnir hans í KR hafa unnið tvo leiki í röð.
Darri Freyr Atlason og strákarnir hans í KR hafa unnið tvo leiki í röð. vísir/vilhelm

Darri Freyr Atlason, þjálfari KR, segist hafa búist við erfiðum leik gegn Hetti í kvöld. Sú varð líka raunin en KR-ingar unnu fimm stiga sigur, 113-108, í hörkuleik.

„Það var örugglega eitthvað spennufall frá þessum Valsleik sem var mjög tilfinningaþrunginn. Svo eru Hattarmenn með fullt af gaurum sem við eigum erfitt með út af liðssamsetningunni okkar,“ sagði Darri eftir leik og vísaði til þess að KR-ingar eru ekki með stóran mann um þessar mundir.

„Mér fannst við samt ná að búa til styrkleika úr þessum skrítnu stöðum og það var sennilega það sem sigldi þessu heim.“

Darri var alls ekki ánægður með varnarleik KR í fyrri hálfleik enda fékk liðið þá á sig 61 stig.

„Lykilinn var að stoppa og þá náðum við að keyra upp hraðann. Fyrir svona lið sem er með fleiri stóra og hæga leikmenn er erfitt að dekka okkur. Í fyrri hálfleik tókum við boltann úr körfunni í hverri einustu sókn. Þá þurftum við alltaf að stilla upp og náðum ekki okkar takti,“ sagði Darri.

KR samdi við Brandon Nazione, Bandaríkjamann með ítalskt ríkisfang, í vikunni. Hann á að hjálpa lágvöxnum KR-liði undir körfunni.

„Hann er bara í vélinni núna. Hann þarf bara að sitja af sér sóttkví,“ sagði Darri um nýja manninn.

Helgi Már Magnússon var fjarri góðu gamni í kvöld. „Hann var bara upptekinn í vinnu. Það er víst bara hluti af þessari deild sem við spilum í,“ sagði Darri að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×