Frakkar, mótherjar íslenska handboltalandsliðsins, eru ekki handhafar neinna titla í handboltanum í dag. Ísland hefur ekki mætt „óbreyttum“ Frökkum á stórmóti síðan í úrslitaleik Ólympíuleikanna í Peking 2008.
Frakkar hafa verið sigursælasta landslið handboltans síðustu tvo áratugi en eru ekki með eins sterkt lið í dag og oft áður.
Þeir eru enn fremur ekki heimsmeistarar, Evrópumeistarar eða Ólympíumeistarar. Danir eru ríkjandi heims- og Ólympíumeistarar og Spánverjar urðu Evrópumeistarar í fyrra.
Frakkar hafa nokkrum sinnum verið handhafar allra þriggja stóru titlana á síðustu áratugum, verið heimsmeistarar, Evrópumeistarar og Ólympíumeistarar á sama tíma.
Frakkar hafa unnið verðlaun á átta af síðustu tíu heimsmeistaramótum eða á öllum heimsmeistarakeppnum á þessari öld nema 2007 og 2013. Frakkar unnu brons á HM fyrir tveimur árum en hafa unnið gullverðlaun á fjórum af síðustu sex heimsmeistarakeppnum.
Í síðustu átta leikjum íslenska landsliðsins á móti Frökkum á stórmótum hefur franska landsliðið verið handhafi einhvers titils.
Þegar þjóðirnar mættust síðasta á stórmóti, sem var HM í Þýskalandi 2019, þá voru Frakkar sem dæmi ríkjandi heimsmeistarar.
Frakkar voru ekki handhafar neins titils þegar þeir unnu íslenska landsliðið í úrslitaleik Ólympíuleikanna 2008. Það er hins vegar í eina skiptið í síðustu tólf stórmótaleikjum þjóðanna þar sem Frakkar eru „óbreyttir“, það ekki ríkjandi meistarar á HM, EM eða ÓL.
Síðustu tólf leikir Íslands og Frakklands á stórmótum:
- HM 2019 á móti heimsmeisturum Frakka - 9 marka tap (22-31)
- HM 2017 á móti heimsmeisturum Frakka - 6 marka tap (25-31)
- HM 2015 á móti Ólympíumeisturum Frakka - Jafntefli (26-26)
- HM 2013 á móti Ólympíu- og heimsmeisturum Frakka - 2 marka tap (28-30)
- ÓL 2012 á móti Ólympíu- og heimsmeisturum Frakka - 1 marks sigur (30-29)
- EM 2012 á móti Ólympíu-, heims, og Evrópumeisturum Frakka - Jafntefli (29-29)
- HM 2011 á móti Ólympíu-, heims, og Evrópumeisturum Frakka - 6 marka tap (28-34)
- EM 2010 á móti Ólympíumeisturum Frakka - 8 marka tap (28-36)
- ÓL 2008 á móti Frökkum - 5 marka tap (23-28)
- EM 2008 á móti Evrópumeisturum Frakka - 9 marka tap (21-30)
- HM 2007 á móti Evrópumeisturum Frakka - 8 marka sigur (32-24)
- EM 2002 á moti heimsmeisturum Frakka - Jafntefli (26-26)