Erlent

Lík­legt að þurfi að koma á alls­herjar ­út­göngu­banni í þriðja sinn

Atli Ísleifsson skrifar
Frá Lyon í Frakklandi. Alls hafa þrjár milljónir manna smitast af kórónuveirunni í Frakklandi frá upphafi faraldursins. Þá hafa um 73 þúsund dauðsföll verið rakin til Covid-19.
Frá Lyon í Frakklandi. Alls hafa þrjár milljónir manna smitast af kórónuveirunni í Frakklandi frá upphafi faraldursins. Þá hafa um 73 þúsund dauðsföll verið rakin til Covid-19. Getty

Helsti sóttvarnafræðingur Frakka segir að líklega þurfi að skella í lás og setja allsherjar útgöngubann í öllu landinu í þriðja sinn síðan kórónuveiran lét fyrst á sér kræla, ef allt eigi ekki að fara úr böndunum að nýju.

Prófessorinn Jean-Francois Delfraissy, sem fer fyrir ráðgjafanefndinni sem er ríkisstjórn Frakklands til aðstoðar í þessum málum, bendir á að þrátt fyrir að strangt útgöngubann að nóttu til hafi verið sett á dögunum þá fjölgi smituðum enn og því ljóst að grípa þurfi til enn harðari aðgerða.

Delfraissy segir ennfremur að breska afbrigðið svokallaða, sem virðist meira smitandi en fyrri afbrigði sé nú að sækja í sig veðrið í landinu og nú sé svo komið að um sjö til níu prósent allra smitaðra í sumum héruðum landsins séu með breska afbrigðið. Það verði því erfitt að hafa hemil á dreifingu þess úr þessu, nema mikið verði að gert.

Delfraissy segir Frakkland væri í betri stöðu en mörg önnur ríki Evrópu, en að nýju afbrigði veirunnar „jafnist á við annan heimsfaraldur“.

Alls hafa þrjár milljónir manna smitast af kórónuveirunni í Frakklandi frá upphafi faraldursins. Þá hafa um 73 þúsund dauðsföll verið rakin til Covid-19.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×