Breskur prófessor hefur varpað fram þeirri tilgátu að fyrsta nafn Íslands hafi ekki verið Thule heldur hafi gríski sæfarinn Pýþeas gefið eyjunni nafnið Thymele, sem þýðir altari á forngrísku. Á Árnastofnun kaupir Gísli Sigurðsson ekki þessa kenningu.
„Getur verið ágæt hugdetta og skemmtilegt viðfangsefni í einhverskonar skáldfræðum. En mjög erfitt að höndla það sem fræðilega hugmynd, finnst mér,“ segir Gísli í fréttum Stöðvar 2.
Hugmynd Bretans breyti því engu um Íslandssöguna.
„Þetta er svona meira í ætt við hugdettufræði þar sem manni dettur eitthvað skemmtilegt í hug til að skýra eitthvað torskilið.“
Upphaflegt rit Pýþeasar um siglingu hans frá Miðjarðarhafi og norður fyrir Bretland á fjórðu öld fyrir Krist er glatað en leiðarlýsing hans til eyjunnar Thule er til í endursögnum frá fyrstu öldum eftir Krist.
Gísli segir fræðimenn almennt á því að átt sé við Ísland og nefnir sérstaklega Barry Cunliffe, höfund bókarinnar „The Extraordinary Voyage of Pytheas the Greek“, þar sem frásögnin um Thule er krufin.
„Það er alveg ótvíræð niðurstaða í þessu riti að það komi ekkert annað til greina heldur en Ísland í því.
Það segir okkur að sjálfsögðu ekki að það hafi verið reglulegar ferðir hingað eða að hér hafi sest nokkur maður að. Það er allt annað ferli sem fer af stað miklu síðar.“
Viðtekin söguskoðun er að norrænir víkingar hafi fyrst kynnst Íslandi fyrir um 1.200 árum. Miðað við frásögn Pýþeasar var gríski sæfarinn hér á ferð um 1.200 árum á undan Ingólfi Arnarsyni. Vitneskjan um Ísland virðist þannig hafa verið til miklu lengur en margir hafa ímyndað sér.
„Ég held að þessu hugmynd hafi verið mjög lengi á lofti, að Thule sé Ísland. Við erum kannski að einfalda um of ef við höldum að Ísland hafi „uppgötvast“ um 870. Það var alls ekki svo. Það var þekkt land löngu fyrr,“ segir Gísli Sigurðsson, rannsóknarprófessor við Árnastofnun.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2:
Hér má sjá frétt frá árinu 2011 um elsta ritaða heiti í norrænum texta á þjóðinni sem byggði Ísland: