Ítrekað hefur komið til átaka á milli mótmælenda og lögreglu, nú síðast í gærkvöldi í borgum á borð við Rotterdam, Amsterdam, Haarlem, Amersfoort og Geleen. Meira en 150 manns handteknir í gærkvöldi að því er greint frá á vef BBC.
Eldar voru kveiktir á götum Haarlem og Haag og í Rotterdam kveiktu mótmælendur í, brutu rúður í verslunum, á veitingastað og í lestarstöð.
Þá notaði lögreglan táragas og vatnsdælur til þess að reyna að dreifa hópi mótmælenda sem fór ránshendi um verslanir í borginni.
Lögreglan í Rotterdam segir mótmælendur hafa farið út á göturnar með það að markmiði að lenda í átökum við lögreglumenn.
Hér fyrir neðan má sjá myndband AP-fréttastofunnar af átökum mótmælenda og lögreglu í Harleem í gær.
Borgarstjórinn í Rotterdam hefur gefið út neyðartilskipun sem veitir lögreglunni í borginni víðtækari heimildir til að handtaka fólk og forsætisráðherra Hollands, Mark Rutte, hefur fordæmt mótmælin sem hann kallar glæpsamlegt ofbeldi.
„Þetta er óásættanlegt. Allt venjulegt fólk horfir á þetta með hryllingi. Það sem keyrir þetta fólk áfram hefur ekkert með mótmæli að gera. Þetta er glæpsamlegt ofbeldi og við munum taka á þessu í samræmi við það,“ sagði Rutte.

Fyrsta útgöngubannið síðan í seinni heimsstyrjöldinni
Útgöngubannið sem fólkið mótmælir tók gildi á laugardag og gildir frá klukkan níu á kvöldin til klukkan hálffimm á morgnana.
Það var sett á þar sem smitum fór mjög fjölgandi í landinu með tilheyrandi spítalainnlögnum og dauðsföllum. Þá óttast yfirvöld mjög breska afbrigði veirunnar.
Veitingastaðir og barir hafa verið lokaðir í landinu síðan í október. Þá var skólum og verslunum sem ekki selja nauðsynjar lokað í desember.
Útgöngubannið er hins vegar það fyrsta sem sett er á í Hollandi síðan í seinni heimsstyrjöldinni. Sekt við broti á banninu nemur 95 evrum sem samsvarar um 15.000 krónum.
Staðfest kórónuveirusmit í Hollandi nálgast óðfluga eina milljón og þá hafa meira en 13.500 látist vegna Covid-19.