Handbolti

Barist um Grafarvog til styrktar Píeta

Sindri Sverrisson skrifar
Baráttan um Voginn er í Dalhúsum í kvöld. Áhorfendur eru ekki leyfðir en hægt er að kaupa miða til styrktar Píeta samtökunum í gegnum Aur appið í síma 664 5206.
Baráttan um Voginn er í Dalhúsum í kvöld. Áhorfendur eru ekki leyfðir en hægt er að kaupa miða til styrktar Píeta samtökunum í gegnum Aur appið í síma 664 5206.

Grafarvogsliðin tvö í handbolta, Fjölnir og Vængir Júpíters, mætast í Grill 66 deildinni í kvöld. Leikmaður sem tengist báðum liðum missti nýverið náinn aðstandanda og ætla liðin að nýta leikinn til að safna fé fyrir Píeta-samtökin.

Í tilkynningu frá Fjölni segir að leikmenn og starfsmenn beggja liða muni bera sorgarbönd í kvöld til að minnast þeirra sem fallið hafa fyrir eigin hendi.

Leikmenn, þjálfarar og stjórnarmenn Fjölnis munu styrkja Píeta-samtökin um sem nemur einum aðgangsmiða, eða 1.500 krónur hver, og Vængir Júpíters ætla að leggja söfnuninni lið með 50 þúsund króna framlagi.

Liðin hafa einnig opnað styrktarreikning þar sem tekið er við frjálsum framlögum til styrktar samtökunum; 0133-15-200680, kt. 631288-7589. Einnig er bent á að hægt sé að kaupa „sýndarmiða“ í gegnum Aur appið í síma 664-5206.

Þó að áhorfendur megi ekki mæta á leikinn í kvöld, vegna kórónuveirufaraldursins, getur fólk séð leikinn á Youtube-síðu Vængja Júpíters og hefst hann kl. 20. Fyrir leikinn er Fjölnir með sjö stig eftir fimm leiki en Vængir Júpíters með tvö.

Píeta-samtökin sinna forvarnarstarfi gegn sjálfsvígum og sjálfsskaða og styðja við aðstandendur. Píeta-síminn 552 2218 er opinn allan sólarhringinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×