Erlent

Leið­togi öfga­hóps uppljóstrari lög­reglu um ára­bil

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Enrique Tarrio, leiðtogi hægriöfgahópsins Proud Boys, hjálpaði alríkislögreglu Bandaríkjanna að handtaka og sakfella 13 manns á árunum 2012-2014.
Enrique Tarrio, leiðtogi hægriöfgahópsins Proud Boys, hjálpaði alríkislögreglu Bandaríkjanna að handtaka og sakfella 13 manns á árunum 2012-2014. Getty/Stephanie Keith

Enrique Tarrio, leiðtogi bandaríska öfgahópsins Proud Boys, hefur um árabil verið uppljóstrari fyrir lögregluyfirvöld í Bandaríkjunum. Hann tók eftir að hann var handtekinn árið 2012 ítrekað þátt í rannsóknum með því að veita lögreglu upplýsingar á laun.

Samkvæmt dómsskjölum frá árinu 2014, sem fréttastofa Reuters hefur undir höndum, báru alríkissaksóknari, lögreglufulltrúi Alríkislögreglunnar (FBI) og lögmaður Tarrios vitni um það að Tarrio hafi í meira en tug rannsókna hjálpað lögregluyfirvöldum við það að koma fólki á bak við lás og slá. Um er að ræða mansalsmál, fíkniefnamál og veðmál.

Tarrio sagði í viðtali við Reuters í vikunni að hann myndi ekki eftir því að hafa starfað með lögregluyfirvöldum. „Ég veit ekkert um þetta,“ sagði hann þegar hann var spurður út í dómsskjölin sem Reuters hefur undir höndum.

Tarrio hefur verið harðlega gagnrýndur undanfarið vegna aðgerða Proud Boys, sem hann leiðir. Hópurinn tók meðal annars þátt í árásinni á bandaríska þinghúsið þann 6. janúar síðastliðinn. Tarrio var sjálfur ekki staddur við þinghúsið þann daginn en minnst fimm meðlimir hópsins hafa verið kærðir vegna þátttöku þeirra í árásinni.

Hann var sjálfur handtekinn þann 4. janúar, tveimur dögum fyrir árásina, þegar hann kom til Washington DC. Hann var kærður fyrir að hafa í fórum sínum tvö riffilskothylki og fyrir það að hafa brennt Black Lives Matter fána í desember á fjöldafundi stuðningsmanna Donalds Trump, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna. Dómstóll í Washington DC gerði honum að yfirgefa borgina þar til mál hans verður tekið fyrir dóm í júní.

Árið 2012 var Tarrio handtekinn og kærður, ásamt tveimur öðrum, fyrir að hafa selt sykursýkispróf, sem þeir höfðu stolið og sett nýjar merkingar á. Næstu tvö árin hjálpaði Tarrio lögreglunni að handtaka og kæra 13 manns fyrir alríkisglæpi, þar á meðal sölu á sterum og öðrum fíkniefnum og mansal. Vegna þessa var dómur hans mildaður úr 30 mánaða fangelsisvist niður í 16 mánaða fangelsi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×