Handbolti

Arnar Daði: Þakka Kidda Björgúlfs fyrir að spila aðra vörn en ég átti von á

Andri Már Eggertsson skrifar
Arnar Daði steig trylltan dans með sínum mönnum að leik loknum.
Arnar Daði steig trylltan dans með sínum mönnum að leik loknum. Vísir/Vilhelm

Nýliðar Gróttu unnu sinn fyrsta sigur í kvöld á ÍR. Grótta tók frumkvæði strax í upphafi leiks og litu aldrei um öxl eftir það. Fór það svo að Grótta vann átta marka sigur, 29-21. Fyrir leik kvöldsins hafði hvorugt liðið unnið leik.

„Mér líður frábærlega ég verð að vera hreinskilin með það, fyrsti sigur okkar í vetur og fyrsti sigur minn í efstu deild, það er alltaf mikilvægt að taka fyrsta sigurinn og munaði um að fá hann í kvöld,” sagði Arnar Daði í skýjunum eftir leikinn.

„ Við spiluðum frábæra vörn, Stefán Huldar var sturlaður, hann var með 67% markvörslu í fyrri hálfleik enn einn leikurinn sem hann spilar vel og var frábært að geta gefið honum sigur.”

ÍR breytti af vana sínum og spilaði öðruvísi vörn en þeir hefðu áður gert fyrir áramót sem kom Arnari Daða á óvart.

„Það kom okkur á óvart að þeir spiluðu 6-0 vörn því við réðum mjög vel við hana og get ég þakkað Kidda Björgúlfs þjálfara ÍR kærlega fyrir það, ég átti von á honum í sígildri 5-1 vörn sem hann fór í seinna meir sem gerði okkur stundum erfitt fyrir,” sagði Arnar sem var ánægður með hvernig liðið hans leysti þessa vörn.

Grótta spilaði leik á móti FH síðasta sunnudag á meðan ÍR voru ekkert búnir að spila í deildinni síðan mótið var sett á ís.

„Mér leið ekki alltof vel fyrir þennan leik, seinasti leikur á móti FH þar sem við höfðum ekki séð þá spila í þrjá mánuði og síðan mætum við ÍR sem við vorum ekki heldur búnir að sjá í þrjá mánuði og við fáum minni undirbúning en þeir svo mér fannst ÍR eiga forskot á okkur en það sást ekki í kvöld svo ætli ég hafi ekki haft rangt fyrir mér í fyrsta sinn í lífinu,” sagði Arnar aðspurður hvort það hjálpaði þeim verandi búnir að spila leik í deildinni eftir pásu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×