Innlent

Ís­land flokkað sem grænt svæði hjá Sótt­varna­stofnun Evrópu

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Eins og sést á þessu korti er Ísland eina landið í Evrópu sem flokkað er sem grænt. Eyjar á Eyjahafi sem tilheyra Grikklandi eru einu önnur svæðin sem flokkuð eru sem græn.
Eins og sést á þessu korti er Ísland eina landið í Evrópu sem flokkað er sem grænt. Eyjar á Eyjahafi sem tilheyra Grikklandi eru einu önnur svæðin sem flokkuð eru sem græn. Sóttvarnastofnun Evrópu

Ísland hefur nú fengið grænan lit í litakóðunarkerfið Sóttvarnastofnunar Evrópu vegna kórónuveirufaraldursins.

Þann 13. nóvember síðastliðinn fékk landið appelsínugulan lit en hafði frá 15. október, þegar fyrsta litakóðunarkortið var gefið út, verið merkt rautt enda var þriðja bylgja faraldursins þá í hámarki hér.

Sóttvarnastofnunin er með þrjá litakóða fyrir það hvernig staðan er í Evrópulöndum varðandi faraldurinn. Land fær grænan lit ef fjórtán daga nýgengi á hverja 100 þúsund íbúa er undir 25 og hlutfall jákvæðra sýna undir 4%.

Samkvæmt upplýsingum á covid.is er nýgengi innanlandssmita hér nú 8,2. Þá kom fram í máli Þórólfs Guðnasonar, sóttvarnalæknis, á upplýsingafundi í gær að hlutfall jákvæðra sýna hjá fólki sem fer í einkennasýnastöku er mjög lágt eða 0,1 prósent.

Varðandi nýgengið er rétt að geta þess að Sóttvarnastofnunin aðskilur ekki nýgengi innanlandssmita og landamærasmita líkt og gert er á covid.is og er nýgengið því merkt í 25,77 í töflu stofnunarinnar um nýgengi smita í löndum Evrópu.

Langflest lönd Evrópu eru merkt með rauðum litakóða á korti Sóttvarnastofnunarinnar. Rautt þýðir að nýgengi smita sé annað hvort 50 eða hærra og að hlutfall jákvæðra sýna sé 4% eða hærra eða þá að nýgengið sé hærra en 150.

Appelsínuguli liturinn þýðir annað hvort að nýgengið sé undir 50 en hlutfall jákvæðra sé yfir 4% eða þá að nýgengið sé á bilinu 25 til 150 og hlutfall jákvæðra sýna undi 4%.

Ljósgrátt þýðir síðan að löndin eru ekki með í tölfræðinni og eins og sést á kortinu er Bretland ekki inni í tölfræðinni en það er það ríki Evrópu sem hefur farið hvað verst út úr faraldrinum.

Einu grænu svæðin fyrir utan Ísland eru nokkrar eyjur í Eyjahafi undan strönd Grikklands, þar á meðal hinn vinsæli ferðamannastaður Krít.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×