Frakkland er í 3. sæti heimslista FIFA, Noregur í 11. sæti, Ísland í 16. sæti og Sviss í 19. sæti.
Þorsteinn var gestur í hlaðvarpsþættinum Sportið í dag þar sem hann var meðal annars spurður um hvernig hann hygðist nýta þessa leiki. Fyrstu leikir Íslands í undankeppni HM verða svo í haust.
„Við viljum fyrst og fremst koma inn mínum hugmyndum og aðlaga liðið að þeim – hvernig við viljum spila. Mótið snýst um það, og fyrir mig líka að kynnast leikmönnum og sjá hvernig þetta harmónerar allt saman. Hvort við náum ekki að koma inn sem mestu,“ sagði Þorsteinn.
„Auðvitað byrjum við á hörkuleikjum og þetta verður verðugt verkefni, en við förum inn í þetta með því markmiði að halda áfram að þróa leik liðsins og bæta það. Maður þarf að gefa sér þennan tíma og þá glugga sem bjóðast til að koma öllu inn sem maður vill koma inn. Minni hugmyndafræði. Þetta verkefni snýst um það, að kynnast því hvernig það passar saman hvernig ég vil gera hlutina og hvernig þær eru í því umhverfi,“ sagði Þorsteinn.
Hægt er að hlusta á Sportið í dag hér að neðan en viðtalið við Þorstein hefst eftir 21 mínútu:
Aðspurður hver helsti munurinn yrði á liðinu frá því áður, undir stjórn Þorsteins, svaraði þjálfarinn sigursæli:
„Þetta eru ekki einhverjar stórkostlegar breytingar. Halda boltanum betur, skerpa aðeins á sóknarleiknum, og svo einhver áhersluatriði inni í leik sem menn koma vonandi til með að sjá vel.“
Kynslóðaskipti asnalegt orð
Jón Þór Hauksson gaf ungum og efnilegum leikmönnum á borð við Sveindísi Jane Jónsdóttur og Karólínu Leu Vilhjálmsdóttur stór hlutverk í síðustu undankeppni. Stendur til að yngja liðið enn frekar upp?
„Auðvitað þurfum við alltaf að horfa eitthvað fram í tímann en í sjálfu sér velur maður bara það landslið sem er best hverju sinni. Kynslóðaskipti er asnalegt orð finnst mér. Landslið snýst um að vera með bestu leikmennina og aldur skiptir engu máli. Ef þú ert nógu góð þá spilar þú. Þeir leikmenn sem eru bestir hverju sinni eru valdir. Við erum ekki að horfa til þess að henda út eldri leikmönnum af því að við viljum yngja upp, bara af því bara. Við viljum að liðið sé sem best hverju sinni,“ sagði Þorsteinn.