Skoðun

Skerðingalaust ár

Drífa Snædal skrifar

Víða um heim er farið að reyna verulega á þanþol almennings eftir frelsisskerðingar og afkomuóöryggi sem faraldurinn hefur í för með sér. Þetta birtist í óeirðum og óþoli víða þótt flestir sýni aðdáunarverða stillingu. Aukinn ójöfnuður og ótti um eigin afkomu er hins vegar gamalreynd uppskrift að óánægju, óþoli og jafnvel óeirðum. Nú berast af því fréttir að ríkustu fyrirtæki og menn í heimi hafi hagnast verulega síðasta árið á sama tíma og fátækt eykst og mörg ríki eru í vandræðum með að mæta kostnaði við bólusetningar. Ójöfnuður eykst hratt og milljónir hafa misst lífsviðurværi sitt. Framtíðin er óviss. Þetta er hinn fullkomni jarðvegur fyrir andlýðræðisleg öfl sem stíga gjarnan inn í upplausnarástand.

Lítum okkur nær: Ísland hefur komið vel út úr faraldrinum í alþjóðlegum samanburði og takmarkanir á athöfnum daglegs lífs hafa því ekki verið jafn harkalegar hér og víða annars staðar. Þetta má þakka öflugu, opinberu heilbrigðiskerfi sem inniber nægilega sérfræðiþekkingu til að geta veitt stjórnmálunum leiðsögn til að takast á við faraldurinn. Stjórnmálin eiga líka sitt, það er að hafa tekið leiðsögninni, fremur en að reyna að keyra heimsfaraldurinn í pólitískan átakafarveg. Hér á landi hefur hins vegar ekki tekist að tryggja afkomu fólks og það er fullt tilefni til að hafa áhyggjur af spillingu og auknum ójöfnuði. Það verður ekki sagt nógu oft að grundvöllur friðar og lýðræðis er að tryggja afkomu. Það má enginn vera undanskilinn; launafólk, atvinnuleitendur, öryrkjar, aldraðir. Allir eiga að búa við afkomuöryggi í sanngjörnu samfélagi. Misréttið var til staðar fyrir kófið. Fólk hefur löngum verið sett í spennitreyju víxlverkandi skerðinga í velferðarkerfinu og oft og tíðum gert ómögulegt að bæta líf sitt án þess að eiga á hættu að missa framfærslu til framtíðar. Þetta er ósanngjarnt og býr til meiri erfiðleika en þurfa að vera. Vísbendingar eru um að kófið muni heldur auka á ójöfnuð og koma verst við þá sem höllum fæti standa en vænka hag hinna.

Nú þegar við horfum fram á tíma þar sem skerðingar á ferðafrelsi og samkomum falla smám saman niður er við hæfi að líta til hinna frelsisskerðinganna sem stórir hópar fólks hafa þurft að búa við á Íslandi vegna skorts á mannsæmandi afkomu. Árið 2022 gæti orðið skerðingarlaust ár, svona svipað og skattlausa árið á níunda áratugnum. Þá hefði fólk tækifæri til að bæta líf sitt, vinna eftir getu og losna tímabundið úr spennitreyjunni. Það gefur okkur líka færi á að byggja sanngjarnara velferðarkerfi fyrir alla og taka stórt skref í átt að auknu afkomuöryggi. Það væri við hæfi að gera þetta um leið og við komum saman, föllumst í faðma og gerum allt sem heimsfaraldurinn hefur komið í veg fyrir.

Góða helgi, Drífa.

Höfundur er forseti ASÍ.




Skoðun

Sjá meira


×