BBC segir frá þessu en greint var frá því í gær að leiðtogum flokkanna á ítalska þinginu hafi mistekist að ná saman um nýja meirihlutastjórn í kjölfar afsagnar Guiseppe Conte forsætisráðherra í síðustu viku.
Sergio Mattarella forseti hefur lýst því yfir að þörf sé á „þungavigtarstjórn“ í landinu. Kórónuveirufaraldurinn hefur leikið landið grátt og glímir það við mikla efnahagslega erfiðleika.
Talsmaður Mattarella hefur staðfest að fundur forsetans og Draghi muni fara fram í hádeginu. Kveðst forsetinn vona að ný ríkisstjórn muni njóta stuðnings meirihluta þingsins. Annars þyrfti að flýta kosningum sem myndu leiða til aukinnar óvissu í landinu.
Fimm stjörnu hreyfingin hefur lýst því yfir að flokkurinn muni ekki styðja ríkisstjórn undir forystu Draghi.
Hinn 73 ára Draghi gegndi embætti seðlabankastjóra Evrópu í átta ár, frá 2011 til 2019.
Forsætisráðherrann Conte sagði af sér eftir að Matteo Renzi, fyrrverandi forsætisráðherra landsins, dró flokk sinn, Italia Viva, úr samsteypustjórn Contes.
Áður hafði Conte í fimmtán mánuði leitt samsteypustjórn Fimm stjörnu hreyfingarinnar og hægriöfgaflokksins Bandalagsins. Sú stjórn sprakk þegar Matteo Salvini, leiðtogi Bandalagsins, dró flokkinn út úr stjórninni í tilraun til að tryggja nýjar kosningar. Það tókst hins vegar ekki eftir að Fimm stjörnu hreyfingin, Lýðræðisflokkurinn og fleiri flokkar ákváðu að snúa bökum saman og mynda nýja stjórn – aftur undir stjórn Contes.