Skoðun

Fram­tíðin er björt – gerum þetta saman!

Ágúst Bjarni Garðarsson, Lovísa Traustadóttir og Ó. Ingi Tómasson skrifa

Það var dapurlegt að lesa grein varabæjarfulltrúa Samfylkingarinnar og fulltrúa flokksins í skipulags- og byggingarráði um uppbyggingu íbúðarhúsnæðis í Hafnarfirði. Grein sem hann síðan fylgdi eftir með útvarpsviðtali á Bylgjunni. Það sem einkennir málflutning Samfylkingarinnar er að hér sé ekkert að gerast og hringlandaháttur í vinnubrögðum meirihlutans sé ástæða fólksfækkunar í Hafnarfirði. Við skulum vera sanngjörn og segja: sú þróun er ekki góð. En hver er ástæðan og hvað er framundan? Förum yfir nokkur atriði.

Nýbyggingarsvæði

Mikil eftirspurn hefur verið eftir lóðum í Skarðshlíð undanfarið og ætla má að síðustu lóðunum í því hverfi verði úthlutað á fundi bæjarráðs í næstu viku. Hverfið sem er í jaðri upplands Hafnarfjarðar í skjólsælum hlíðum á móti suðri verður að okkar mati eitt eftirsóttasta hverfi höfuðborgarsvæðisins innan fárra ára. Fyrsta fjölbýlishúsið fór nýverið í sölu og seldust allar íbúðir upp á nokkrum dögum. Nýbyggingarsvæði í Hafnarfirði eru samkvæmt svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins og aðalskipulagi Hafnarfjarðar; Hamranes, Ásland 4 og 5 og Vatnshlíð. Samþykkt hefur verið að hefja vinnu við deiliskipulag Áslands 4 og 5, þar sem gert er ráð fyrir góðri blöndu húsnæðis. Eins og við flest vitum, en virðist því miður ítrekað koma fulltrúum Samfylkingarinnar sérstaklega á óvart, var forsenda uppbyggingar á þessum svæðum niðurrif Hamraneslínu. Samkomulag við Landsnet gerði ráð fyrir að niðurrifi línanna yrði lokið árið 2018, en ekkert varð að þeim áformum vegna kæru umhverfissamtaka og niðurfellingu Úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindarmála á framkvæmdaleyfi á Lyklafellslínu. Með samkomulagi bæjarins við Landsnet var Hamraneslína flutt til bráðabirgða frá jaðri Skarðshlíðar og nýbyggingarsvæðinu í Hamranesi. Hófust þeir flutningar um mitt ár 2019. Nú standa yfir framkvæmdir við gatnagerð í Hamranesi, þar sem nú þegar búið er að úthluta lóðum undir 298 íbúðir og veita lóðarvilyrði fyrir um 900 íbúðum. Þessi fjöldi íbúða þýðir fjölgun um 3000 íbúa – bara á þessu nýbyggingarsvæði og munu byggingaframkvæmdir hefjist á vormánuðum. Við þetta má bæta að framkvæmdum við Ásvallabraut mun ljúka á þessu ári sem verður mikil samgöngubót fyrir okkur Hafnfirðinga og þá sérstaklega nýja og væntanlega íbúa þessara hverfa.

Hraun vestur – þétting byggðar

Fulltrúa Samfylkingarinnar láðist af einhverjum ástæðum að minnast á þá uppbyggingu sem nú er að hefjast við Hraun vestur - Gjótur. Þar er fyrirhuguð byggð, 490 íbúðir auk verslunar- og þjónustuhúsnæðis. Aðal- og deiliskipulag liggur fyrir og gert er ráð fyrir því að framkvæmdir hefjist nú á vormánuðum. Hvers vegna minnist fulltrúi Samfylkingarinnar ekki einu orði á þessa kröftugu uppbygginu sem þar er að hefjast og á svæði sem er á besta stað við samgönguás Borgarlínunnar? Gæti það verið vegna þess að Samfylkingin hefur ítrekað lagst gegn uppbyggingu á svæðinu og greitt atkvæði gegn málinu? Það er von að spurt sé. Önnur þéttingarverkefni fara í úthlutun þegar skipulag liggur fyrir og má þar sérstaklega nefna Hjallabraut og Hlíðarbraut, en gera má ráð fyrir að þær lóðir verði mjög eftirsóttar. Dvergsreiturinn svokallaði er í einkaeigu og eru lóðarhafar nú að vinna að fullnaðarteikningum í samræmi við þá áætlun sem kynnt hefur verið bæjaryfirvöldum og tekið hefur verið fyrir á fundum bæjarráðs.

Förum rétt með staðreyndir

Það er ekki góð þróun að röngum upplýsingum sé stöðugt veifað framan í bæjarbúa. Nú er mál að linni og hægt er að fullyrða að bæjarbúar munu sjá afrakstur mikillar vinnu þessa kjörtímabils á næstu mánuðum líkt og farið hefur verið yfir hér að ofan. Íbúum mun fjölga verulega og falleg hverfi byggjast upp. Gerum þetta nú saman – bæjarfélaginu okkar og samfélaginu hér til heilla.

Ágúst Bjarni Garðarsson, formaður bæjarráðs

Lovísa Traustadóttir, fulltrúi í skipulags- og byggingarráði

Ó. Ingi Tómasson, formaður skipulags- og byggingarráðs




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×