Handbolti

Halda vart vatni yfir mosfellsku skyttunni

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Þorsteinn Leó Gunnarsson hefur skotist fram á sjónarsviðið í vetur.
Þorsteinn Leó Gunnarsson hefur skotist fram á sjónarsviðið í vetur.

Þorsteinn Leó Gunnarsson hefur leikið vel með Aftureldingu í upphafi tímabils og hrifið sérfræðinga Seinni bylgjunnar.

Þorsteinn skoraði átta mörk úr níu skotum þegar Afturelding tapaði fyrir FH, 27-33, í Olís-deildinni í gær þrátt fyrir að spila lengst af hægra megin fyrir utan. Þessi átján ára skytta er markahæsti leikmaður Aftureldingar á tímabilinu með 26 mörk í sjö leikjum.

„Hann er að leysa þetta frábærlega. Hann gerir helling af mistökum, aðallega sendingar. Hann er stór og er kannski enn að læra á líkamann. Hann er enn að þroskast,“ sagði Jóhann Gunnar Einarsson í Seinni bylgjunni í gær. Hann lýgur engu með að Þorsteinn sé stór, nánar tiltekið 2,05 metrar á hæð og vel yfir hundrað kíló.

Klippa: Seinni bylgjan - Umræða um Þorstein Leó

Jóhann Gunnar kveðst ánægður með hversu mikið traust Þorsteinn fær frá Gunnari Magnússyni, þjálfara Aftureldingar.

„Hann er ekkert að kippa honum út af. Það kviknar á honum og hann tekur þrjú til fjögur mörk í röð,“ sagði Jóhann Gunnar.

Ásgeir Örn Hallgrímsson segir að Þorsteinn sé ekki bara langskytta, hann hafi ýmislegt annað fram að færa.

„Hann virðist vera flinkur. Hann er að brjótast í gegn og er mjög lunkinn í að fiska menn út af. Mér finnst hann þurfa að skjóta aðeins meira fyrir utan. Það þarf nýta þessa miklu stærð sem hann hefur og skotlagið hans er þannig að hann er mjög hátt með höndina,“ sagði Ásgeir Örn.


Seinni bylgjan er uppgjörsþáttur Stöðvar 2 Sports um Olísdeildir karla og kvenna í handbolta og er á dagskrá öll mánudagskvöld. Upptökur af þættinum má nálgast á sjónvarpsvef Stöðvar 2. Olísdeildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×