Skoðun

Óeðlileg völd og áhrif stórra útgerðarfyrirtækja

Oddný G. Harðardóttir skrifar

Tíu stærstu útgerðirnar fara með meira en helming kvótans og 20 stærstu meira en 70% kvótans. Ofan á þetta bætist svo eignarhald þessara útgerðarisa í öðrum útgerðum.

Fyrir rúmum 20 árum voru samþykktar lagabreytingar sem ætlað var að vinna sérstaklega gegn samþjöppun aflahlutdeildar. Samþjöppun var talin skaðleg vegna mikilvægis fiskveiða fyrir íslenskan þjóðarbúskap. Yfirráð fárra yfir fiskveiðiauðlindinni myndi þýða meiri völd fárra í þjóðfélaginu en heilbrigt væri og of sterka stöðu þeirra gagnvart stjórnvöldum. Samþjöppun kæmi einnig í veg fyrir samkeppni og hamlaði nauðsynlegri endurnýjun. Þá var bent á að samþjöppun gæti beinlínis unnið gegn þjóðarhag, sérstaklega ef viðkomandi stæðu sig ekki í því að skapa sem mest verðmæti úr auðlindinni. Tilfærsla milli byggða myndi skaða sveitarfélög og tilfærsla milli útgerðarflokka gæti leitt til þess að minni útgerðir færu halloka. Á þessu öllu áttu lögin að taka.

En lögin hafa ekki náð tilgangi sínum. Enda má samkvæmt þeim einn aðili ráða yfir 12% kvótans, og því til viðbótar eiga 49,99% hlut í öllum hinum fyrirtækjunum sem ráða yfir þeim 88% sem út af standa. Þannig getur einn aðili átt hlutdeild í meira en helmingi kvótans sem árlega er úthlutað. Þessi túlkun á lögunum gengur þvert á anda þeirra.

Endurskoða þarf lögin strax. Í skýrslu verkefnastjórnar um bætt eftirlit með fiskveiðiauðlindinni sem ég átti sæti í, eru tillögur um breytingar á lögum um fiskveiðistjórnun þar sem fjallað er um tengda aðila. Fyrirmyndin er í lögum um fjármálamarkaði.

Verkefnastjórnin leggur til að lögunum um fiskveiðistjórnun verði breytt þannig:

  • Skilgreining á tengdum aðilum verði látin ná til hjóna, sambúðarfólks og barna þeirra.
  • Ákveðin stjórnunartengsl milli fyrirtækja leiði til þess að fyrirtækin séu talin tengd nema sýnt sé fram á hið gagnstæða.
  • Skilgreint verði hvað felst í raunverulegum yfirráðum.
  • Aðilar sem ráða meira en 6% af aflahlutdeild eða 2,5% af krókaflahlutdeild skulu tilkynna til Fiskistofu áætlaðan samruna, kaup í félagi sem ræður yfir hlutdeild eða kaup á hlutdeild og koma kaupin ekki til framkvæmda nema samþykki Fiskistofu liggi fyrir.
  • Fiskistofu verði veittar auknar heimildir til að afla gagna.

En þessar breytingar eru ekki nóg. Í nýjum lögum um skráningu raunverulegra eigenda fyrirtækja er miðað við 25% beinan eða óbeinan eignarhlut til að aðilar teljast tengdir eða aðili teljist raunverulegur eigandi. Upplýsingar um raunverulega eigendur fyrirtækja eru ávallt aðgengilegar almenningi og ef sami háttur væri hafður á um fyrirtæki í sjávarútvegi og yfirráð yfir kvóta væri auðvelt að hafa eftirlit með því hvort farið er yfir 12% hámarkið. Meirihlutaeign, eins og er í núverandi lögum, er allt of rúmt viðmið og leiðir af sér samþjöppun og óheillaþróun í nýtingu fiskveiðiauðlindar þjóðarinnar.

Samþjöppun leiðir af sér fábreytt útgerðarform, aukna kerfislæga áhættu og getur leitt til einokunar. Stór útgerðarfyrirtæki hér á landi eru í raun rekin sameiginlega og hafa samráð um veiðar, vinnslu og sölu afurða. Það er nauðsynlegt að vinna gegn slíkri samþjöppun og því að stóru útgerðarfyrirtækin verði svo stór að völd þeirra og áhrif í þjóðfélaginu verði óeðlileg og vinni gegn almannahag.

Höfundur er þingflokksformaður Samfylkingarinnar




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×