Erlent

Banna transstúlkum og -konum að taka þátt í keppnisíþróttum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Víða í Bandaríkjunum er deilt um réttindi transfólks.
Víða í Bandaríkjunum er deilt um réttindi transfólks.

Öldungadeild Mississippi samþykkti á fimmtudag að banna transstúlkum og -konum að taka þátt í keppnisíþróttum í framhalds- og háskólum. Bannið var samþykkt með 34 atkvæðum gegn níu.

Þingmenn í öðrum ríkjum Bandaríkjanna hafa gert tilraunir til að koma svipuðum lögum í gegn, til dæmis í Montana, Norður-Dakóta og Idaho. Stuðningsmenn lagasetningar segja transstúlkur hafa ósanngjarnt forskot, á meðan andstæðingar segja lögin fela í sér mismunun.

Rob Hill, framkvæmdastjóri Human Rights Campaign í Mississippi, sagði í tilkynningu að frumvarpið opnaði á útilokun og einelti, á sama tíma og mismunun og ofbeldi gegn transfólki væri í hæstu hæðum í Bandaríkjunum.

Stúlkur þyrftu nú að keppast við „líffræðilega karla“

Í janúar síðastliðnum gaf Joe Biden Bandaríkjaforseti út tilskipun þar sem tekið var á mismunun á grundvelli kyns og kynhneigðar. Sagði hann að börn ættu að geta farið í skólann án þess að þurfa að hafa áhyggjur af því hvort þau kæmust á salernið eða gætu stundað íþróttir.

Tate Reeves, ríkisstjóri Mississippi, brást við á Twitter og sagði tilskipunina „taka frá“ kvenkyns íþróttamönnum á borð við dætur sínar, sem þyrftu nú að keppast við „líffræðilega karla“ um aðgang að íþróttum.

„Ég skil ekki af hverju stjórnmálamenn eru að ýta börnum í átt að transisma yfirhöfuð,“ sagði Reeves. „Hjarta mitt brestur fyrir þær ungu konur víðsvegar um Bandaríkin sem verða undir í þessari róttæku félagslegu tilraun.“

CNN greindi frá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×