Gunnar Jóhann var dæmdur fyrir að hafa skotið hálfbróður sinn, Gísla Þór Þórarinsson, til bana í Mehamn í apríl 2019. Var dómurinn í samræmi við kröfur saksóknara í málinu, sem sögðu drápið hafa verið framið að yfirlögðu ráði.
Greint var frá því í desember að verjendur Gunnars Jóhanns hafi fengið til liðs við sig lögmanninn Brynjar Meling sem er vel þekktur í Noregi, fyrst og fremst fyrir að hafa verið lögmaður Mulla Krekar, dæmds hryðjuverkamanns.
Á dagskrá norsku dómstólanna kemur fram að ráð sé fyrir gert að meðferð standi til 1. mars.
Dómarinn við héraðsdómstól Austur-Finnmerkur sagði þegar dómur var kveðinn upp í málinu í október að hann gæti ekki útilokað að skot úr haglabyssunni sem Gunnar notaði hafi hlaupið úr byssunni án þess að þrýst hafi verið á gikkinn. Hegðun og athæfi Gunnars umrætt kvöld hafi hins vegar orsakað andlát Gísla.
Sagði dómarinn að Gunnar Jóhann hlyti að hafa áttað sig á því að það að fara heim til Gísla Þórs með hlaðna haglabyssu með að markmiði að ógna honum gæti á einn eða annan hátt leitt til dauða Gísla.
Bjørn Andre Gulstad, verjandi Gunnars Jóhanns, sagðist á sínum tíma óánægður með niðurstöðu dómara og var dómnum áfrýjað þegar í stað. Hélt Gulstad því fram að um slysaskot hafi verið að ræða og því ætti að dæma Gunnar í fjögurra til fimm ára fangelsi fyrir manndráp af gáleysi. Hann sagðist ósáttur við hvernig dómarinn hafi metið orsakasamhengi atburða umrædds kvölds.