Golf

Woods með með­vitund og bregst við á­reiti eftir að­gerð

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Frá vettvangi slyssins í gær.
Frá vettvangi slyssins í gær. Getty/Wally Skalij

Golfstjarnan Tiger Woods er með meðvitund og bregst við áreiti eftir aðgerð sem hann undirgekkst í gærkvöld eftir að hafa slasast alvarlega í bílslysi í Los Angeles.

Hinn 45 ára gamli Woods, sem hefur unnið fimmtán stórmót á ferlinum, var einn í bíl sínum þegar hann lenti í árekstri við annan. Bíllinn skemmdist mikið og þurfti að beita klippum til að ná honum út.

Í yfirlýsingu frá aðstandendum hans í gærkvöldi kom fram að hann hefði hlotið alvarlega áverka á hægri fæti og var hann strax settur í aðgerð.

Einn af lögreglumönnunum sem komu fyrstir á vettvang hefur sagt að Woods sé heppinn að vera á lífi miðað við aðkomuna á slysstað. Woods hafi ekki getað staðið í lappirnar en hann hafi verið rólegur og skýr þegar hann sagði til nafns.

Tiger Woods er ein skærasta golfstjarna heims.Getty/Jamie Squire

Alex Villanueva, yfirmaður lögreglunnar í LA, segir ýmislegt benda til þess að Woods hafi ekið yfir hámarkshraða. Slys séu hins vegar ekki óalgeng á þessu svæði þar sem ökumenn eru á leið niður af hæð og þurfa að taka margar krappar beygjur.

Villanueva segir Woods hafa ekið á gangstéttarbrún, tré og svo hefði bíllinn oltið nokkrum sinnum. Þá hefðu ekki verið nein ummerki um áfengis- eða vímuefnaneyslu.

Woods glímdi við verkjalyfjafíkn á árum áður vegna krónískra meiðsla í baki. Í janúar á þessu ári gekkst hann undir sína fimmtu bakaðgerð og er það ástæða þess að hann hefur ekkert keppt undanfarið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×