Innlent

Stóri skjálftinn hluti af hrinu sem hófst í Krýsu­vík fyrir nokkrum dögum

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Jarðskjálftahrina hófst í Krýsuvík fyrir nokkrum dögum.
Jarðskjálftahrina hófst í Krýsuvík fyrir nokkrum dögum. Vísir/Vilhelm

Skjálfti að stærðinni 5,7 sem reið yfir klukkan 10:05 í morgun og átti upptök sín um þrjá kílómetra suðsuðvestur af Keili er hluti af hrinu sem hófst í Krýsuvík fyrir nokkrum dögum.

Í tilkynningu á vef Veðurstofunnar klukkan 11:36 segir að frá því á miðnætti í nótt hafi mælst um 500 skjálftar í hrinunni.

Annar skjálfti að stærð 4,2 mældist um klukkan 10:27 og átti hann upptök sín í Núpstaðahálsi innan við einn kílómeter norðvestur af Krýsuvík.

Stærsti skjálftinn í morgun fannst víða um land og hefur Veðurstofan fengið tilkynningar meðal annars úr Vestur-Húnavatnssýslu, Ólafsvík og frá Hellu.

„Rúmlega 500 jarðskjálftar mældust á Reykjanesskaganum í síðustu viku, um 100 fleiri en í fyrri viku.

Mesta virknin var annars vegar við Fagradalsfjall, einkum síðari hluta vikunnar og hins vegar norðan og austan Grindavíkur. Stærsti skjálftinn við Fagradalsfjall var 2,3 að stærð þann 21. febrúar kl. 09:28 og sá stærsti við Grindavík, 2,8 þann 21. febrúar kl. 17.30.

Engar tilkynningar bárust um að þessir skjálftar hefðu fundist. Þann 18. febrúar kl. 08:10 varð skjálfti 2,9 að stærð við Núpshlíðarháls. Það var stærsti skjálfti vikunnar. Um 20 jarðskjálftar mældust á Reykjaneshrygg, stærsti 18. febrúar kl. 08:16 M2,8.

Athugið að skjálftavirknin er bundin við Reykjanesskaga. Aðrar staðsetningar á skjálftum eru óáreiðanlegar meðan verið er að fara yfir sjálfvirkar mælingar.

Á kortum okkar birtast óyfirfarin gögn sem þýðir að þar má greina tákn um staðsetningu skjálfta utan Reykjanesskaga sem ekki eru áreiðanleg gögn,“ sagði í tilkynningu á vef Veðurstofunnar klukkan 10:30 í morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×