Atvinnulíf

„Ætli maður mæti ekki á morgnana af gömlum vana“

Rakel Sveinsdóttir skrifar
Systkinin Lovía Matthíasdóttir, Ragnar Matthíasson og Baldvin Smári Matthíasson hjá Poulsen.
Systkinin Lovía Matthíasdóttir, Ragnar Matthíasson og Baldvin Smári Matthíasson hjá Poulsen. Vísir/Vilhelm

„Ætli maður mæti ekki á morgnana af gömlum vana,“ segir Ragnar Matthíasson framkvæmdastjóri Poulsen og hlær. „Maður hefði alla vega nóg annað að gera ef maður myndi hætta að vinna. Ég er í hestunum, með sumarbústað og síðan erum við með fjölskylduhús á Spáni og því alveg hægt að segja í gríni að vinnan sé að trufla áhugamálin!“ segir Ragnar.

„En á meðan maður hefur gaman að þessu, heldur maður áfram,“ segir systir hans Lovísa Matthíasdóttir, fjármálastjóri Poulsen. „Ég er til dæmis löngu komin á aldur en hér er ég enn. Reyndar nú í hálfu starfi en það er sama; hann losnar ekki við mig,“ segir Lovísa og hlær.

Í helgarviðtali Atvinnulífsins heyrum við söguna á bakvið fjölskyldufyrirtækið Poulsen.

Í járnsteypu árið 1910

Poulsen var stofnað árið 1910 og hefur í raun flust á milli þriggja fjölskyldna síðan.

Valdimar Poulsen stofnaði Poulsen árið 1910 en hann kom upphaflega til Íslands til að starfa við Járnsteypu Reykjavíkur sem þá var og hét.

Stofnandi fyrirtækisins var Valdimar Poulsen járnsteypumeistari. Hann kom frá Danmörku til að starfa að uppbyggingu Járnsteypu Reykjavíkur, sem þá var og hét. 

Þegar Valdimar stofnaði fyrirtækið hóf hann einnig viðskipti með eldfastan leir og ýmsa málma. 

Árið 1926 opnaði hann síðan smávöruverslun á Klapparstíg og bætti þá við alls kyns vélum og varahlutum, auk smíðaverkfæra.

Árið 1946 kaupir Ingvar Kjartansson kaupmaður helmingshlut í fyrirtækinu. Hann varð síðan forstjóri fyrirtækisins í áratugi og aðaleigandi frá 1963 til dauðadags árið 1990.

Áratuginn eftir fráfall Ingvars ráku þrjár dætur hans fyrirtækið. Þær skiptu Poulsen upp í tvær deildir; baðdeild annars vegar en vélar og varahluti hins vegar.

Snemma í bókhald og rekstur

Frá árinu 2001 hefur Poulsen verið í eigu hluta fjölskyldu Matthíasar Helgasonar og Elínar Ragnarsdóttur. 

Þau hjónin ráku Bílanaust í tæp fjörtíu ár, en seldu fyrirtækið síðan til fjárfesta. 

„Pabbi var að vinna á Keflavíkurvelli og hefur eflaust myndað alls kyns tengsl þar við Ameríkanann en á þessum tíma var hér mikið af amerískum bílum. Hann og Hákon Kristinsson keyptu Kaupfélag Suðurnesja- Járn og skip, og stofnuðu Stapfell. Þar voru seldar alls konar vörur,“ segir Ragnar.

Og Lovísa bætir við:

„Já í Stapfell byrjaði maður að sópa tíu ára en ég held að það hafi svo sem ekki verið neitt annað en eftirspurn sem skýrði það út hvers vegna reksturinn þróaðist yfir í bílabransann og vörur honum tengdum. Pabbi og Hákon stofnuðu útibú í Reykjavík undir nafninu Bílanaust. Árið 1964 skiptu þeir fyrirtækinu upp og þá tók pabbi Bílanaust en Hákon Stapfell.“

Systkinin muna ekki æskuna öðruvísi en að allir hafi verið að hjálpa til.

„Maður fór með pabba á laugardögum í Bílanaust og þegar það var frí í skólanum. Fyrst byrjaði maður að vinna á lagernum en ætli ég hafi ekki verið svona tólf ára þegar ég var farinn að afgreiða,“ segir Ragnar og hlær þegar hann rifjar upp gamla tíma.

Ég var hins vegar sett í pappírinn fljótlega uppúr fermingu. Maður dreifði úr sér inni í stofu með pappír út um allt. Það þurfti að sortera nóturnar og ganga frá þeim og síðan vélritaði maður yfirlitin,“

segir Lovísa hlæjandi.

Á þessu ári eru 111 ár síðan Poulsen var stofnað. Hjá fyrirtækinu starfa nú tæp fjörtíu manns og hér má sjá hluta starfshópsins.Vísir/Vilhelm

Í heitum pottum

Systkinin eru fimm talsins og fór svo að hluti systkinahópsins keypti Poulsen árið 2001, ásamt föður sínum sem kom fyrst og fremst að kaupunum sem fjárfestir. 

Eftir eigendaskiptin fluttist reksturinn í Skeifuna 2 þar sem fyrirtækið er enn til húsa. Í Poulsen starfa enn systkinin Ragnar, Lovísa og Smári.

„Við vorum með lítið fyrirtæki sem seldi heita potta og vorum að velta fyrir okkur hverju við gætum bætt við. Okkur barst til eyrna að baðdeild Poulsen væri jafnvel til sölu sem við fórum að skoða,“ segir Ragnar og skýrir út að það hafi í raun verið tilviljun að þau enduðu með að kaupa fyrirtækið í heild sinni.

Þótt upphaflega hugmyndin hafi verið samlegðaráhrif heitu pottanna og baðdeildarinnar, var baðdeildin fljótlega seld út úr rekstrinum og heitu pottarnir nokkru síðar.

Bakgrunnurinn okkar er bílageirinn og því þróuðust hlutirnir fljótlega þannig að við fórum að horfa á þann geira. Þar var tengslanetið okkar enn sterkt, bæði hér heima og út um allan heim,“ 

segir Ragnar.

Í dag er vöru- og þjónustulína Poulsen mjög breið, en þó sérhæfð fyrir iðnað og bílabransann.  „Við seljum til bænda, bílaumboða, bílaverkstæða, ferðaþjónustu, í fiskvinnslur, til álveranna og fleiri,“ segir Ragnar um reksturinn í dag.

Ragnar með börnum sínum Aroni og Elínu, sem bæði starfa hjá Poulsen.Vísir/Vilhelm

Þegar Davíð keypti Golíat

Árið 2005 keypti Poulsen fyrirtækið Orka-Snorri G. Guðmundsson, eða OSG. Með kaupunum bættust við um tuttugu starfsmenn og ýmsar umboðsvörur í innflutningi, svo sem Pilkington bílrúður, DuPont bílalökk, 3M slípivörur og fjölbreytt flóra varahluta og verkfæra.

OGS var í rauninni miklu stærri fyrirtæki en okkar. Við vorum bara eins og lítil sjoppa í samanburði,“ 

segir Lovísa og hlær.

„Já í raun má segja að þetta hafi verið Davíð að kaupa Golíat,“ segir Ragnar og brosir.

Að sameinast fyrirtæki sem í raun var stærra en það sem fyrir var, viðurkenna systkinin að hafi verið nokkur áskorun. Það hafi því tekið nokkur ár að slípa reksturinn til á ný.

Þá kom upp það ófyrirséða vandamál að þau misstu húsnæðið sem OSG hafði verið í.

„Við keyptum þá kjallarann undir Epal og færðum lagerinn þangað. Það fyndna var samt að við áttum þessa fasteign áður, höfðum selt hana Prentmet en keyptum hana síðan aftur til að redda okkur,“ segir Ragnar og hlær.

„Já málin leysast alltaf á endanum,“ segir Lovísa og brosir.

Stuttu síðar keypti Poulsen rekstur Framrúðunnar og með því bættist við nýr þjónustuliður bílrúðuísetninga.

Bílabransinn var bakgrunnur systkinanna og segir Ragnar það því fljótlega hafa gerst eftir kaup á fyrirtækinu, að Poulsen þróaðist meira í þá átt en baðdeildin var seld.Vísir/Vilhelm

Bankahrun og Covid

Á 111 árum hefur rekstur Poulsen farið í gegnum tímanna tvenna. Talið berst að bankahruninu og Covid.

„Við fengum ekki mikið högg á okkur í bankahruninu en ætli það hafi ekki bjargað okkur að við vorum staðsett hér í eigin húsnæði,“ segir Lovísa.

„Það voru kannski helst gengisbreytingarnar sem voru erfiðar því þær hækkuðu auðvitað skuldir við erlenda birgja umtalsvert,“ segir Ragnar.

Í Covid hefur Poulsen aldrei þurft að loka fyrirtækinu var hólfaskipt um tíma og passað að starfsfólk færi ekki á milli allra eininga. Ekki einu sinni í eldhúsið.

Við finnum alltaf fyrir því þegar einhver atvinnugrein á bágt. Til dæmis er mikill samdráttur hjá okkur núna í rúðum því ferðaþjónustan er úti og þar vorum við með marga samninga. 

En það sama átti við um það þegar sjómannaverkfallið stóð yfir fyrir nokkrum árum, þá dróst verulega saman hjá okkur í vissum vörum,“ 

segir Ragnar og bætir við: „En það sem hjálpar mest er breið vörulína því einhvern veginn virðist það vera þannig að þegar ein einingin hrynur í sölu, tekur önnur eining sölukipp.“

Stundum rekast þau þó á eitthvað sem endurspeglar hvaða áhrif Covid er að hafa á heiminn.

„Við höfum selt sterka nitril hanska í mörg ár. Í fyrra ætlaði ég að panta einn gám til landsins en var þá sagt að það væri 17 mánaða bið!“ segir Ragnar og hlær.

Þá segja þau nýju heimasíðu fyrirtækisins hafa komið sér vel í Covid. Hún var lengi í smíðum en náði loks að fara í loftið árið 2020. Þar með bættist við nýr búðargluggi þar sem fólk getur slegið inn bílnúmer og séð hvaða varahlutir eru til í bifreiðina og fleira.

Systkini, feðgar og feðgin, frænkur og frændur (fv): Lovísa, Smári, Ragnar, Aron og Elín.Vísir/Vilhelm

Kynslóðir í rekstri

Systkinin segja það eflaust hafa haft einhver áhrif, að þau leiddust út í rekstur, hafandi verið alin upp við rekstur foreldra sinna.

Þá starfa tvö börn Ragnars hjá Poulsen en það eru þau Aron Ragnarsson og Elín Ragnarsdóttir.

„Það er þó bara tilviljun að svo er,“ segir Ragnar.

Í lokin eru systkinin spurð hvort þau muni ekki eftir einhverri skemmtilegri sögu þegar þau líta til baka yfir farinn veg.

Ragnari dettur þá ein saga í hug sem fær systkinin bæði til að brosa.

Þannig var að þegar Poulsen keypti OSG fóru þeir feðgarnir saman, Ragnar og Matthías, til að skoða fyrirtækið til mögulegs kaups.

„Ég sá samt snemma að það var eins og pabbi væri eitthvað skrýtinn. Hann labbaði skringilega og mér fannst hann eitthvað svo furðulegur og þetta var frekar skrýtið því við vorum jú þarna til að skoða möguleg kaup á fyrirtæki. Mér var hætt að lítast á þetta þannig að ég færði mig að honum og stóð við hliðina á honum ef vera kynni að eitthvað kæmi fyrir,“ segir Ragnar.

Og hvað gerðist?

„Það bara allt í einu leið yfir hann!“ segja systkinin í kór.

Þau taka það fram að yfirliðið var hvorki undanfari né eftirköst veikinda og aldrei hafi í raun fundist skýring á því hvers vegna leið yfir karlinn.

En fyrir vikið hefur sagan verið sögð þannig að þegar pabbi heyrði hvert verðið var, þá bara steinleið yfir hann!“ 

segja systkinin og skella upp úr.


Tengdar fréttir

„Ég leiðrétti hana og benti á að ég er ekki mamma mín“

„Ég myndi segja að kvenleggurinn í fjölskyldunni samanstandi af miklum fagurkerum. Við viljum allar hafa fínt í kringum okkur. Meira að segja amma er enn að, nú 92 ára og rétt nýbúin að láta mála hjá sér og skipta um gardínur,“ segir Hrund Kristjánsdóttir og hlær. Hrund rekur húsgagnaverslunina Línuna með eiginmanni sínum Ágústi Jenssyni húsasmíðameistara. Línan var stofnuð árið 1976 og hefur frá upphafi verið í eigu sömu fjölskyldu.

Bankahrunið ekkert á við Covid

„Asíubúarnir eru áberandi jákvætt og hresst fólk. Maður setur kannski fyrirvara á ökufærnina hjá þeim en þessi hópur fer hvorki hratt yfir eða langt upp á jökul. Það þýðir til dæmis ekkert að blanda Asíubúum saman við hóp af Norðmönnum því Norðmennirnir vilja fara hraðar og lengra,“ segir Haukur Herbertsson rekstrarstjóri fjölskyldufyrirtækisins Mountaineers of Iceland.

„Það var við múrinn sem hugmyndin vaknaði“

Lífshlaup og starfsferill Sigríðar Snævarr sendiherra hljómar eflaust eins og eitt stórt ævintýri fyrir marga. Ráðherrar, forsetar, njósnir, ísjaki til Parísar, Páfastóll í Róm, núvitund og nýsköpun, Harvard, Björn í ABBA og svo mætti lengi telja. Fyrir þann sem hefur auga fyrir ævintýrum og segir sögu sína út frá þeim, er hvert ævintýrið á fætur öðru í sögu sem þó er hvergi nærri lokið.

„Úti á bílastæði hitti hann Elvis Presley, Ronald Reagan og fleiri“

„Jú þetta hefur mikið breyst,“ segja félagarnir Ágúst Andri Eiríksson, Eiríkur Eyfjörð Benediktsson og Árni Jóhann Elfar um breytingar sem hafa orðið á bílaverkstæðum síðustu áratugina. Félagarnir þrír eiga og reka Réttingaþjónustuna. „Menn voru grímulausir að vinna með alls kyns eiturefni, mála og sprauta,“ segir Árni um aðbúnaðinn eins og hann eitt sinn var. „Og enginn með hanska eða neitt, það þótti bara aumingjaskapur,“ segir Eiríkur. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×