Tuttugu manna áhöfn Icelandair hélt af stað frá Keflavík til Höfðaborgar í Suður-Afríku á miðvikudagskvöld og hélt svo þaðan áfram til Suðurskautsins á föstudagsmorgun. Vélin lenti þar um hádegisbil á föstudag samkvæmt upplýsingum frá Icelandair.

August Hakansson, leiðangursstjóri og flugstjóri, sagði í kvöldfréttum RÚV að ferðin hafi gengið vel. Veðrið hafi verið gott við komuna, lending og flugtak hafi gengið vonum framar og flugbrautin ekki verið hál þrátt fyrir að vera uppi á jökli.
Eftir stutt stopp á Suðurskautslandinu, þar sem vísindafólk á norsku rannsóknarstöðinni Troll á Prinsessu Mörtu ströndinni var sótt, var förinni heitið aftur til Höfðaborgar og þaðan til Óslóar í Noregi.
Samkvæmt upplýsingum frá Icelandair er um leiguflugsverkefni á vegum Loftleiða, dótturfélags Icelandair Group, að ræða en Loftleiðir sérhæfa sig í leiguflugi og ráðgjöf. Þá segir í tilkynningu frá félaginu að fjöldi starfsmanna Icelandair og Loftleiða hafi komið að þessari ferð, sem hafi krafist gríðarlegs undirbúnings enda aðstæður um margt sérstæðar.