Skipið MV Helios Ray varð fyrir einhvers konar sprengingu í síðustu viku sem gataði báðar hliðar skipsins.
Engan sakaði í atvikinu en Netanjahú segir nú að ljóst sé að Íranir hafi gert þessa árás. Hann hefur þó ekki opinberað sönnunargögn fyrir þessum ásökunum.
„Íran er stærsti óvinur Ísraels. Ég er staðráðinn í að stöðva ríkið,“ sagði Netanjahú og sagði hann Ísrael standa í hárinu á Íran víðsvegar um svæðið, samkvæmt frétt AP fréttaveitunnar.
Forsætisráðherrann var spurður hvort að ríkisstjórn hans myndi svara sérstaklega fyrir þessa árás, vísaði hann aftur í að Ísraelar væru að standa í hárinu á þeim víða.
Utanríkisráðuneyti Írans segir að Íranir hafi ekki komið að árásinni á skipið og talsmaður ráðuneytisins segir Netanjahú vera með þráhyggju gagnvart Íran.
Times of Israel segir Netanjahú hafa sömuleiðis staðhæft að ráðamönnum í Íran yrði ekki leyft að koma upp kjarnorkuvopnum. Forsætisráðherra sagðist hafa gert ríkisstjórn Joe Bidens, forseta Bandaríkjanna, ljóst hver afstaða hans væri.
Ómanflói fer um Hormuzsund og er það mikilvæg flutningaleið fyrir olíu frá Mið-Austurlöndum. Árið 2019 sökuðu Bandaríkin Írani um að nota segulmagnaðar sprengjur til að gera árásir á nokkur olíuflutningaskip í flóanum.
Enn er ekki ljóst hvað olli sprengingunni í Helios Ray en miðað við fregnir fjölmiðla í Ísrael er bæði talið mögulegt að eldflaug hafi verið skotið á skipið og að sérsveitarmenn á litlum bátum hafi komið sprengjum fyrir utan á skipinu.