Skoðun

Geðheilbrigðismál í forgangi

Svandís Svavarsdóttir og Helga Margrét Jóhannesdóttir skrifa

Við höfum góða geðheilsu ef okkur líður yfirleitt vel, þekkjum eigin styrk- og veikleika og getum nýtt þá til að ná fram því besta í okkur sjálfum. Ef geðheilsa okkar er góð erum við betur í stakk búin til að takast á við hversdaginn og ráðum betur við krefjandi aðstæður og erfiðleika.

Í umræðu um geðheilbrigðisþjónustu vill gjarnan gleymast að langflestir glíma við geðrænan vanda einhvern tímann á lífsleiðinni; hvort sem um tímabundna vanlíðan ræðir eða langvarandi veikindi. Talið er að um 24% Íslendinga muni upplifa einhvers konar geðröskun á ævinni. Fordómar gagnvart geðsjúkdómum og þekkingarleysi á einkennum og afleiðingum þeirra er því miður enn of algengt í íslensku samfélagi.

Mikilvægt er að í heilbrigðiskerfinu okkar sé í boði viðeigandi þjónusta fyrir þau sem glíma við geðheilsuvanda, og að við aukum fræðslu um geðsjúkdóma og afleiðingar þeirra til að draga úr fordómum.

Útrýmum jaðarsetningu

Fólk með geðrænan vanda mætir of oft skilningsleysi af hálfu samfélagsins. Slíkt skilningsleysi getur skilað sér í því að þau sem glíma við slíkan vanda verða fyrir aðkasti og fordómum, eiga í erfiðleikum með að fá vinnu og eru jafnvel talin hættulegri en annað fólk, svo dæmi séu nefnd. Fordómar geta líka haft þau áhrif að fólk leitar sér síður hjálpar. Jaðarsetning fólks sem glímir við geðrænan vanda er veruleiki sem þarf að útrýma.

Við þurfum að passa betur upp á hvert annað og vinna markvisst að því að eyða fordómum fyrir geðsjúkdómum úr samfélaginu. Til að því megi koma við þarf markvisst að auka fræðslu og forvarnir, hætta að skilgreina fólk út frá veikindum og breyta markvisst neikvæðri orðræðu um geðsjúkdóma.

Þannig tryggjum við að þau sem þarfnast geðheilbrigðisþjónustu njóti sömu virðingar og þau sem glíma við líkamleg veikindi. Efling geðheilbrigðisþjónustunnar er grundvallaratriði í þessu samhengi.

Margt hefur gerst í geðheilbrigðismálum á kjörtímabilinu

Geðheilbrigðisþjónusta hefur verið efld mikið á kjörtímabilinu og aðgengi að henni bætt um allt land. Í fyrsta lagi má nefna að á kjörtímabilinu hefur fjárveiting til geðþjónustu innan heilsugæslunnar stóraukist, en aukningin nemur rúmlega 800 milljónum króna. Í fjáraukalögum fyrir árið 2020 og á fjárlögum 2021 var samþykkt 540 milljóna króna viðbótarfjárveiting á hvoru ári vegna Covid-19 til að efla þverfaglegra geðheilbrigðisþjónustu.

Aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu hefur verið stóreflt um land allt. Til dæmis hefur sálfræðingum í heilsugæslunni fjölgað úr 33 upp í um 66 á kjörtímabilinu. Geðheilsuteymi um land allt hafa verið fjármögnuð og hafa tekið til starfa en árið 2020 sinntu teymin rúmlega 2600 manns. Sérstakt geðheilsuteymi fyrir fanga hefur tekið til starfa, sérstakt geðheilsuteymi fyrir fjölskyldur og annað teymi fyrir fólk með þroskahömlum og skyldar raskanir.

Til að bregðast sérstaklega við aðstæðum tengdum Covid-19 var í apríl 2020 sett á fót geðráð sem hefur það hlutverk að tryggja samhæfða upplýsingagjöf til notenda geðheilbrigðisþjónustu. Einnig sem viðbragð við Covid-19 faraldrinum hafa tveir stýrihópar verið stofnaðir, annars vegar til að vakta geðheilsu þjóðarinnar og hins vegar til að vakta lýðheilsu þjóðarinnar á tímum heimsfaraldurs.

Í lok árs 2020 var boðað til geðheilbrigðisþings um stefnumótun og framtíðarsýn og nú er unnið að heildarstefnu í geðheilbrigðismálum til ársins 2030 í heilbrigðisráðuneytinu. Stefnan verður byggð á heilbrigðisstefnu.

Hvert stefnir Vinstrihreyfingin – grænt framboð?

Mikilvægt er að halda áfram að byggja ofan á þann árangur sem náðst hefur í geðheilbrigðismálum á síðastliðnu kjörtímabili. Í velferðarstefnu Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs er meðal annars lögð áhersla á öfluga geðheilbrigðisþjónustu í heilsugæslunni og öflugar forvarnir þegar kemur að geðheilbrigði.

Öllum þarf að gefast kostur á þeirri geðheilbrigðisþjónustu sem þau þarfnast og hafa rétt á, óháð búsetu, fjárhag og félagslegum aðstæðum. Með því að tryggja og efla þjónustuna drögum við líka úr fordómum.

Ekki má gleymast að geðrænn vandi hefur ekki eingöngu áhrif á þau sem við hann glíma heldur umhverfi þeirra, aðstandendur og samfélagið í heild. Án fullnægjandi geðheilbrigðisþjónustu glatast dýrmætur mannauður og því er hagur allra að setja geðheilbrigðismálin í forgang. Það viljum við gera áfram.

Svandís Svavarsdóttir er heilbrigðisráðherra og þingmaður Vinstri grænna.

Helga Margrét Jóhannesdóttir situr í stjórn Ungra vinstri grænna.




Skoðun

Sjá meira


×