Erlent

Segir ósanngjarnt að hann sé í fangelsi

Samúel Karl Ólason skrifar
Richard „Bigo“ Barnett á skrifstofu Nancy Pelosi.
Richard „Bigo“ Barnett á skrifstofu Nancy Pelosi. EPA/JIM LO SCALZO

Richard Barnett, sem naut fimmtán mínútna heimsfrægðar í árásinni á þinghús Bandaríkjanna þann 6. janúar, er ekki sáttur við að sitja í fangelsi. Hann missti stjórn á sér í dómsal í gær og gargaði á dómara í gegnum fjarfundarbúnað að hann ætti ekki að þurfa að sitja inni fram að réttarhöldum.

Barnett var einn þeirra sem ruddi sér leið inn í þinghúsið sjálft, vopnaður rafmagnsbyssu, og fór inn á skrifstofu Nancy Pelosi, forseta fulltrúadeildar Bandaríkjaþings. Þar settist hann meðal annars í stól hennar fyrir myndatökur, stal umslagi af borði hennar og skrifaði skilaboð til hennar þar sem hann kallaði hana tík.

Mynd af honum sitja við skrifborð Pelosi fór eins og eldur í sinu um internetið.

Hann var handtekinn innan við viku síðar og hefur lýst því yfir að hann sé saklaus. Um þrjú hundruð manns hafa verið ákærð vegna árásarinnar hingað til. Mörg þeirra hafa kvartað hástöfum yfir hvernig komið hefur verið fram við þau.

Ein kona frá Texas kvartaði til að mynda nýverið yfir því að hafa verið „útskúfuð“ (e. canceled) og að hún hafi ekki fengið að að fara í frí til Mexíkó.

Barnett fór fyrir dómara á fjarfundi nýverið og öskraði hann á dómarann að ríkisstjórnin væri að draga mál hans á langinn en sleppa öllum öðrum úr haldi. Það væri ekki sanngjarnt. Hann sagði málaferlin gegn sér hafa verið algjört rugl, samkvæmt frétt Washington Post.

Saksóknarar segja hættu á því að Bernett flýi, verði honum sleppt úr haldi. Það er byggt á því að hann sagði rannsakendum eftir að hann var handtekinn að eftir árásina á þinghúsið hefði hann keyrt til Arkansas, slökkt á síma sínum, notað einungis reiðufé og hulið andlit sitt.

Þá sagði hann að lögregluþjónar fyndu ekkert merkilegt á heimili hans, því hann væri „gáfaður maðurׅ“ og hefði flutt byssur sínar.

USA Today hefur eftir lögmanni Barnett að hann ætlaði að krefjast þess áfram að skjólstæðingi sínum yrði sleppt úr haldi og þóttist viss um að skammlíf frægð hans í kjölfar árásarinnar sé meðal ástæðna þess að honum hafi ekki verið sleppt.

„Þetta eru Bandaríkin. Þú ert saklaus þar til sannað sé að þú sért sekur. Án þessarar myndar, held ég að hann væri laus. Já, ég held það,“ sagði lögmaðurinn Joseph McBride.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×