Erlent

Franskur milljarða­mæringur lést í þyrlu­slysi

Sylvía Hall skrifar
Olivier Dassault.
Olivier Dassault. EPA/ETIENNE LAURENT

Franski milljarðamæringurinn og stjórnmálamaðurinn Olivier Dassault er látinn, 69 ára að aldri. Dassault lést eftir að einkaþyrla hans hrapaði í Normandí í Frakklandi síðdegis í dag.

Frá þessu er greint á vef Guardian.

„Olivier Dassault elskaði Frakkland. Iðnaðarforingi, þingmaður, kjörinn fulltrúi, yfirmaður í flughernum: Hann hætti aldrei að þjóna landi okkar og standa vörð um gildi þess á meðan hann lifði,“ sagði Emmanuel Macron Frakklandsforseti í yfirlýsingu eftir að greint var frá andlátinu.

Dassault var á meðal ríkustu manna Frakklands og sat í 361. sæti á lista Forbes yfir ríkasta fólk heims árið 2020. Hann var elsti sonur franska milljarðamæringsins Serge Dassault, eiganda Dassault Aviation og dagblaðsins Le Figaro.

Hann sat einnig á þingi fyrir íhaldsflokkinn Les Républicains frá árinu 2002 og sagði sig frá stjórnarmennsku í fyrirtæki föður síns eftir að stjórnmálaferill hans hófst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×