Sport

Kúrekarnir borga Dak Prescott 8,4 milljarða við undirskrift

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dak Prescott ætti að vera mjög kátur með nýja samninginn sinn hjá Dallas Cowboys.
Dak Prescott ætti að vera mjög kátur með nýja samninginn sinn hjá Dallas Cowboys. Getty/Tom Pennington

Dallas Cowboys í NFL-deildinni hefur gert nýjan samning við leikstjórnandann sinn Dak Prescott en fátt hefur verið meira um rætt í bandarískum íþróttamiðlum en framtíð Dak í Dallas.

Dak Prescott hefur slegið í gegn í leikstjórnandastöðunni hjá þessum risaklúbb en hefur hingað til verið á mjög lágum launum í samanburði við margra aðra leikstjórnendur NFL-deildarinnar.

Dak Prescott meiddist illa á ökkla í fimmtu viku á síðasta tímabili og missti því af stórum hluta þess og það ýtti aðeins undir óvissuna með framtíð hans. Hann mun ná sér að fullu af meiðslunum en það var mikil óvissa með hvort Dallas væri tilbúið að borga honum alvöru pening.

Nú er aftur á móti orðið ljóst að Dak Prescott fær metsamning hjá Dallas Cowboys liðinu. Þessi 28 ára leikmaður þarf ekki að hafa áhyggjur af peningum framar.

Dallas Cowboys er tilbúið að borga honum 160 milljónir Bandaríkjadala, eða 20,4 milljarða íslenskra króna fyrir fjögurra ára samning. Dak er öruggur með 126 milljónir dala, sama hvernig gengur hjá honum á þessum tíma.

Hann setur síðan nýtt met með því að fá 66 milljónir dala borgaðar strax við undirskrift en það eru 8,4 milljarðar íslenska króna. Þetta gerir það að verkum að hann fær 75 milljónir dollara fyrir fyrsta ár samningsins sem er einnig met.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×