Handbolti

Fimm bestu undir tvítugu: „Spilar póker og er í hundaklippiháskóla“

Sindri Sverrisson skrifar
Sunneva Einarsdóttir valdi fimm bestu leikmennina undir tvítugu. Í innslaginu má sjá hverjar það eru.
Sunneva Einarsdóttir valdi fimm bestu leikmennina undir tvítugu. Í innslaginu má sjá hverjar það eru. Stöð 2 Sport

„Það var erfiðara en að fæða barn að setja saman þennan lista,“ sagði Sunneva Einarsdóttir lauflétt í bragði í Seinni bylgjunni. Hún hafði þá lýst því yfir hvaða fimm leikmenn Olís-deildar kvenna handbolta, undir 20 ára aldri, væru bestar.

Sunneva fór á kostum þegar hún las upp listann. Hún kvaðst hafa sett sig í samband við leikmennina fimm og fengið að grennslast fyrir um þeirra helstu áhugamál utan handboltans. Sjón er sögu ríkari en innslagið má sjá hér að neðan.

Klippa: Seinni bylgjan - Bestu fimm undir 20 ára

Á listann komust þær Elín Klara Þorkelsdóttir úr Haukum, Harpa Valey Gylfadóttir úr ÍBV, Ásdís Ágústsdóttir úr Val, Elín Rósa Magnúsdóttir úr Val og Rakel Sara Elvarsdóttir úr KA/Þór sem var í efsta sætinu.

Sunneva sagði frá áhugamálum stelpnanna en ekki fylgdi sögunni hversu nákvæmar eða réttar upplýsingar hennar væru. Svörin voru að minnsta kosti skrautleg:

„Elín Klara æfir boccia þegar hún er ekki í handbolta, spilar póker og er í hundaklippiháskóla,“ sagð Sunneva. Og um efstu stelpu á listanum, Rakel Söru, sagði hún?

„Hún les bækur, tekur göngutúra á sandinum og gerir sandengla.“

„Á hvaða strönd?“ spurði Þorgerður Anna Atladóttir sposk á svip en hún bjó á Akureyri á sínum tíma. Ekki stóð á svari: „Akureyrarströndinni“.

Innslagið skemmtilega má sjá hér að ofan en þar nefnir Sunneva þá leikmenn sem voru næstir því að komast inn á listann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×