Erlent

Banna föngun fugla í límgildrur

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Límgildurnar eru notaðar til að fanga smáfugla sem eru svo aftur notaðir til að laða að stærri fugla.
Límgildurnar eru notaðar til að fanga smáfugla sem eru svo aftur notaðir til að laða að stærri fugla.

Evrópudómstóllinn hefur ákveðið að banna alfarið föngun fugla með því að bera lím á trjágreinar, jafnvel þótt um sé að ræða gamla veiðihefð. Stjórnvöld í Frakklandi bönnuðu aðferðina í fyrra en ákvörðuninni var harðlega mótmælt af veiðimönnum.

Áður en bannið tók gildi voru svokallaðar límgildrur aðeins notaðar í suðausturhluta Frakklands, eftir að aðferðin var fordæmd um alla Evrópu. 

Dýraverndunarsinnar segja aðferðina grimmilega og hættulega tegundum í útrýmingarhættu en veiðimenn segja eingöngu smáfugla verða fyrir skaða.

Aðferðin er notuð til að fanga litla spörfugla á borð við þresti, sem eru síðan losaðir og settir í búr til að laða að stærri fugla. Það eru stóru fuglarnir sem veiðimennirnir eru á höttunum eftir. 

Að veiðitímabilinu loknu er smáfuglunum sleppt en sérfræðingar segja þá oftar en ekki illa farna eftir límið, bæði bein og fjaðrir. Þá verða þeir fyrir eiturnaráhrifum af völdum límsins og efnanna sem notuð eru til að losa þá.

Evrópudómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu að jafnvel þótt um væri að ræða gamla hefð þá væri ekki réttlætanlegt að viðhafa hana. Aðrir fuglar gætu fests í gildrunum og þá væru allar líkur á að allir fuglar sem lentu í þeim yrðu fyrir óafturkræfum skaða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×