Erlent

Óttast þriðju bylgjuna og skella í lás

Sylvía Hall skrifar
Frakkar taka enga sénsa þegar útlit er fyrir þriðju bylgjuna þar í landi.
Frakkar taka enga sénsa þegar útlit er fyrir þriðju bylgjuna þar í landi. Getty/Kiran Ridley

Útgöngubann verður sett á í frönsku höfuðborginni París í ljósi þess að kórónuveirusmitum fer fjölgandi. Síðasta sólarhringinn greindust 35 þúsund í Frakklandi og verður gripið til sambærilegra aðgerða á fimmtán svæðum til viðbótar.

Frá þessu er greint á vef breska ríkisútvarpsins þar sem fram kemur að staðan sé sérstaklega slæm í París, en breska afbrigði kórónuveirunnar hefur verið í mikilli útbreiðslu þar í landi. Tólf hundruð manns eru á gjörgæslu í borginni sem er meiri fjöldi en á hápunkti seinni bylgjunnar í nóvember síðastliðnum. 

Þá greindist nýtt afbrigði veirunnar í Frakklandi á dögunum, en það er þó ekki talið meira smitandi en önnur afbrigði veirunnar. Afbrigðið kann þó að greinast verr í PCR-prófum.

Aðgerðirnar verða þó ekki jafn harðar og fyrri útgöngubönn. Að sögn Jean Castex, forsætisráðherra Frakklands, verður fólki heimild að stunda líkamsrækt utandyra og skólar verða áfram opnir. Aðeins nauðsynlegar verslanir á borð við matvörubúðir og apótek verða opnar.

Íbúum er óheimilt að ferðast á milli svæða í landinu á meðan bannið er í gildi nema hafa ríka ástæðu til. Þeir sem fara á milli svæða þurfa að fylla út eyðublað og gera grein fyrir ferðalögum sínum og ástæðum þeirra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×