Innlent

Eins og „góð þjóðhátíð“ miðað við bílafjölda

Sylvía Hall skrifar

„Ég hef aldrei séð annan eins ágang,“ segir Hjálmar Hallgrímsson lögreglumaður um bílaumferðina sem hefur myndast á lokunarpósti á Suðurstrandarvegi, rétt austan við Grindavík. Þúsundir hafa lagt leið sína í átt að Fagradalsfjalli eftir að eldgos hófst í Geldingadal á föstudagskvöld og ber bílafjöldinn þess merki.

Þegar fréttamaður Stöðvar 2 ræddi við Hjálmar í kvöld sagði hann umferðina hafa verið ofboðslega mikla um helgina. Allt hafi gengið vel fyrir sig og margir mætt vel útbúnir þó eitthvað væri um smávægileg óhöpp. „Annars hefur þetta gengið ótrúlega vel.“

Ákveðið var í dag að loka litlu svæði næst gossprungunni í Geldingadal þar sem stóri gígurinn gæti brostið og hrauntaumurinn breytt hratt um stefnu. Fyrr í dag hrundi úr stærsta vegg gígsins og fossaði logandi kvikan niður.

„Ég geri ráð fyrir því að það þurfi að gera einhverjar ráðstafanir fyrir næstu helgi ef þetta heldur svona áfram,“ segir Hjálmar. „Þetta er bara góð þjóðhátíð miðað við bílafjölda. Ég hef aldrei séð annað eins hér.“

Viðtalið við Hjálmar má sjá í spilaranum hér að neðan.


Tengdar fréttir

Á göngu í níu klukkustundir án þess að komast að gosinu: „Strákurinn minn var orðinn virkilega hræddur og var að örmagnast“

Níu ára drengur og faðir hans villtust af leið á leið sinni til að skoða eldgosið í Geldingadal í gær. Feðgarnir voru á göngu í um níu klukkutíma, matarlausir, með rafmagnslausan síma og hefðu mátt vera betur búnir. Feðgarnir komust heim heilir á húfi um miðnætti í gær en drengurinn var að sögn móður hans orðinn mjög hræddur og þreyttur. Svekktastur var hann yfir því að hafa ekki náð að komast alla leið að eldgosinu og sjá það með berum augum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×