Skoðun

Öflugri sem ein heild

Berglind Ósk Guðmundsdóttir skrifar

Sumir tala um það að setja upp „landsbyggðargleraugun” þegar að þingmenn eða aðrir ráðamenn vekja athygli á málefnum landsbyggðarinnar. Ég á mér þann draum að fólk þurfi ekki að setja sig í stellingar til að standa fyrir málefnum er varða landsbyggðina.

Þvert á móti hugmyndir margra, þá vilja ekkert allir búa á höfuðborgarsvæðinu og þannig viljum við líka ekki hafa byggðina í landinu. Við viljum eiga þann kost á að geta dreift byggð og átt sterka og öfluga kjarna í fjarlægð frá höfuðborgarsvæðinu.

Gæðunum er misskipt og það veldur togstreitu á milli suðvesturhornsins og landsbyggðarinnar.

Norðurslóðamál á Norðurlandi – galin pæling?

Norðurslóðastofnanir eru fjölmargar á Norðurlandi og flestar eru þær á Akureyri. Enda skildi það teljast eðlilegt að norðurslóðamálefni eigi heima á norðurlandi. Samt sem áður var það ekki fyrsti og eini augljósi kosturinn þegar velja átti “höfuðstað norðurslóðamála” á Íslandi.

Eitthvað sem landsbyggðarbúum er augljóst þarf ekki að vera augljóst fyrir augum höfuðborgarbúa.

Menning á sér líka stað á landsbyggðinni

Það virðist einnig ekki vera tekið eftir því hversu öflugt menningarlíf er á landsbyggðinni. Samt virðist menningarmálaráðherra það nær ómögulegt að viðurkenna menningu hér út á landi til jafns við menningu á höfuðborgarsvæðinu. Hlutfallslegri jöfnun á grundvelli íbúafjölda er synjað. Áhugaleysið fyrir menningu á landsbyggðinni virðist vera algjört.

Við þurfum að jafna metin

Staðreyndin er sú að það er gríðarleg verðmætasköpun á landsbyggðinni sem hefur bætt lífskjör allra landsmanna. Sjávarútvegurinn, raforkan og auðlindirnar eru gæðin sem eru á víð og dreif um landið. Fjármagni til innviðauppbyggingar er þó ekki jafn vel skipt og gæðunum.

Landsbyggðin þarfnast öflugra og áberandi þingmanna sem vekja stöðugt athygli á þessum atriðum. Vandamálið við „landsbyggðargleraugun“ er að gleraugun er hægt að taka niður. Málefni landsbyggðarinnar eiga ekki að vera þess eðlis að hægt sé að klæða sig í og úr þeim eftir hentisemi. Það þarf einna helst að fara að líta á málin á heildstæðan máta og jafna þannig leikinn.

Ég vona að með skrifum mínum sé ég ekki að telja þér trú um að ég hafi einhverja óvild í garð höfuðborgarsvæðisins. Þvert á móti er það raunin. Ég trúi því hins vegar að landbyggðina verði að styrkja til að standa á móti öflugu og sterku höfuðborgarsvæðinu. Þannig bætum við lífsgæði allra.

Höfundur er lögfræðingur og frambjóðandi í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi.




Skoðun

Sjá meira


×