Innlent

Ríkisstjórnin fundar um hertar aðgerðir innanlands

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra mun funda með öðrum ráðherrum í dag vegna stöðunnar.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra mun funda með öðrum ráðherrum í dag vegna stöðunnar. Vísir/Vilhelm

Ríkisstjórnin kemur saman til aukafundar síðar í dag til að ræða tillögur Þórólfs Guðnasonar, sóttvarnalæknis, um hertar aðgerðir innanlands vegna útbreiðslu kórónuveirunnar.

Þetta segir Lára Björg Björnsdóttir, upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar, í samtali við Vísi.

Hún segir að ríkisstjórnin eigi eftir að fá tillögur Þórólfs í hendurnar en að fundað verði um þær í dag. Endanlegur fundartími liggur ekki fyrir en að loknum fundi ríkisstjórnarinnar verður að öllum líkindum boðað til blaðamannafundar.

Sautján greindust með kórónuveiruna innanlands í gær samkvæmt uppfærðum tölum á covid.is. Þrír þeirra voru utan sóttkvíar, hinir fjórtán voru í sóttkví.

Þórólfur sagði í samtali við fréttastofu í gær að ef á þyrfti að halda þá væri hann tilbúinn með minnisblað til ráðherra um hertar aðgerðir innanlands.

Samkvæmt heimildum fréttastofu fundaði Þórólfur með ráðherranefnd ríkisstjórnarinnar um stöðu faraldursins í morgun.

Hægt er að fylgjast með öllum nýjustu tíðindum af málinu í vaktinni.

Fréttin var uppfærð klukkan 10.52.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×