Það er augljóst að Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir er ekki sáttur við þá stöðu sem upp er komin eftir að héraðsdómur dæmdi það ólöglegt að skylda fólk í sóttkví á sóttkvíarhótelum. Það takmarkaði mjög nauðsynlegar sóttvarnaaðgerðir og sem nauðsynlegt væri að skjóta lagalegum stoðum undir.
„Já, ef við ætlum að tryggja sýkinga- og sóttvarnir. Eins og ég hef margoft sagt áður er helsta hættan okkar núna að fá smit í gegnum landamærin,“ segir sóttvarnalæknir. Að skylda alla óbólusetta ferðamenn sem heldur hafi ekki fengið sjúkdóminn í sóttkví á hótelum hafi verið til að girða fyrir þekkta veikleika.
„Ef okkur tekst það ekki held ég að við munum fá meira smit innanlands. Þá þurfum við væntanlega að búa við meiri takmarkanir innanlands ef við ætlum að halda þessum faraldri í skefjum þar til við náum meiri útbreiðslu bólusetninga,“ segir Þórólfur. Þannig gæti aflétting þeirra ströngu samkomutakmarkana sem nú væru í gildi gengið hægar fyrir sig.
Á miðnætti tók reglugerð dómsmálaráðherra síðan gildi sem heimilar fólki utan Schengen og evrópska efnahagssvæðisins sem hefur annað hvort jafnað sig á covid eða fengið bólusetningu að koma til landsins eftir eina skimun og komu fyrstu farþegarnir frá Bandaríkjunum í morgun. Bandaríkin hafa hins vegar ekki enn opnað fyrir ferðamenn inn til sín.
Þórólfi segir að 70 til 80 prósent þeirra sem greinist á landamærunum mæti með PCR vottorð reynist eingu að síður smitaðir.
„Auðvitað er það áhyggjuefni að það eru svona margir að greinast í seinni skimun núna. Helmingurinn. Sem segir okkur að það þarf ennþá frekar að tryggja að fólk fari eftir öllum leiðbeiningum í sinni sóttkví,“ segir Þórólfur. Það sé erfitt að hafa eftirlit með því nema allir taki sóttkvína út á sóttkvíarhótelum.
Rögnvaldur Ólafsson aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra segir þann árangur sem hér hafi náðst ekki vera tilviljun. Hann hafi náðst með samstilltu átaki margra.
„Þetta hefur tekist af því að við höfum gert það sem þarf að gera þegar þarf að gera það. Og það hefur verið talað um að við njótum þeirrar gæfu á Íslandi að hlustað hafi verið á ráð sérfræðinganna og þeim verið fylgt. Það er vænlegast til áframhaldandi árangurs að svo verði áfram,“ segir Rögnvaldur.