Stofnun mælaborðsins er hluti af samkomulagi ríkis og bænda við endurskoðun rammasamnings búvörusamninga en þar kemur fram að nauðsynleg þyki að hafa yfirsýn yfir framleiðslu, sölu og birgðir í landinu m.a. vegna fæðuöryggis.
Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra opnaði Mælaborð landbúnaðarins fyrir helgi.
„Við erum búin að vinna að þessu í rúmt ár. Þetta er í grunnin tæki eða verkfæri til að tryggja yfirsýn yfir framkvæmd landbúnaðarstefnu eða mála landsins á hverjum tíma og er gríðarlega mikilvægt til að öðlast einhvers konar yfirsýn yfir framleiðslu, sölu og birgðir landbúnaðarafurða í landinu,“ sagði Kristján Þór Júlíusson.
Dæmi um upplýsingar í mælaborðinu eru stuðningsgreiðslur til bænda, framleiðsla og innflutningur búvara - og tölfræðilegar upplýsingar um fjölda bænda og búfénaðar.
„Þetta á að geta gagnast öllum. Bæði stjórnvöldum, bændum, almenningi og fjölmiðlum til þess að byggja umræðu um landbúnað á raunupplýsingum,“ sagði Kristján Þór.
Kristján Þór segir að um þróunarverkefni sé að ræða og megi því búast við stöðugum endurbótum. Í fyrsta áfanga er lögð áhersla á yfirsýn yfir framleiðslu, sölu og birgðir landbúnaðarafurða hér á landi, auk stuðnings við bændur samkvæmt búvörusamningum.