Golf

Telur að sigurinn á Masters gæti aukið vin­sældir í­þróttarinnar í heima­landinu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Hideki Matsuyama í græna jakkanum.
Hideki Matsuyama í græna jakkanum. Jared C. Tilton/Getty Images

Hideki Matsuyama varð í gær fyrsti karlkylfingurinn frá Japan til að vinna risamót í golfi er hann vann hið goðsagnakennda Masters-mót. Hann er einnig fyrsti kylfingurinn frá Asíu sem klæðist græna jakkanum.

Fyrir sigur Matsuyama í gær höfðu þær Hisako Hiiguchi og Hinako Shibuno unnið risamót í golfi kvenna megin. Higuchi vann LPGA-meistaramótið árið 1977 en Shibuno vann Opna breska árið 2019.

Matsuyama er hins vegar fyrsti karl kylfingurinn til að næla í titil af þessari stærðargráðu og reikna má með að vinsældir hans heima fyrir muni aukast til muna. Eitthvað sem hann er ef til vill ekkert of ánægður með en kylfingurinn hefur aldrei verið mikið fyrir sviðsljósið.

„Ég er mjög ánægður. Ég varð ekki stressaður á síðari níu holunum heldur var ég stressaður strax frá upphafi hringsins og fram á síðasta pútt,“ sagði Matsuyama í gegnum túlk eftir frækinn sigur sinn í gær.

„Ég hugsaði um fjölskyldu mína allan tímann og ég er mjög ánægður að hafa spilað vel fyrir þeirra hönd. Vonandi get ég verið frumkvöðull og aðrir Japanir fetað í mín fótspor. Ég er ánægður með að hafa mögulega opnað flóðgáttirnar,“ bætti hann við að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×