Innlent

Farfuglarnir streyma til landsins – sumir örmagnast

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Óðinshanahjón á góðri stundu en það eru „öfug kynhlutverk“ hjá óðinshana og þórshana, hún er skrautlegri og getur átt nokkrar karla, hann sér um álegu og ungauppeldi.
Óðinshanahjón á góðri stundu en það eru „öfug kynhlutverk“ hjá óðinshana og þórshana, hún er skrautlegri og getur átt nokkrar karla, hann sér um álegu og ungauppeldi. Jóhann Óli Hilmarsson

Farfuglar streyma nú til landsins í þúsunda tali eins og lóur, spóar, stelkar, þúfutittlingar og maríuerla. Það tekur á fyrir fuglana að fljúga svona langt og eru margir við það að örmagnast þegar þeir koma til landsins.

Það er alltaf gaman þegar farfuglarnir mæta til landsins enda merki um að vorið og sumarið sé á næstaleyti. Fuglarnir koma ýmist til að verpa hér eða stoppa stutt og næra sig áður en þeir halda ferð sinni áfram til Grænlands og heimskautaeyja Kanada til að verpa. 

Jóhann Óli Hilmarsson, fuglafræðingur segir að fjölmargar tegundir séu komnar nú þegar til Íslands eftir langt flug.

„Við erum náttúrulega með heimsmethafann í farfuglaflugi hjá okkur en það er krían. Hún flýgur héðan úr norðuratlantshafinu, þær eru nú víðar en hér, til dæmis á Grænlandi, Skandinavíu og Svalbarða. Þær fljúga alveg pólanna á milli, fara í suðuríshafið og eru þar á veturna en taka svo góðan sveig hérna um Atlantshafið,“ segir Jóhann Óli.

Alltaf er eitthvað af fuglum, sem örmagnast úr þreytu á leið sinni til Íslands.

„Já, já, þetta er löng flugleið og erfitt fyrir lita smáfugla, sérstaklega getur veðrið tekið illa á móti þeim. Þeir reyna að velja gott veður þegar þeir leggja af stað og stíla upp á það að komast til landsins í sæmilegum byr en svo getur veðrið snúist við um leið og þá lenda þeir í hremmingum og mótvindi og geta dottið í sjóinn og drepist.“

En hvaða farfuglar eru seinastir að koma til landsins?

„Óðinshani og þórshani, þeir frændur koma síðastir, þeir koma ekki fyrr en um miðjan maí og Þórshaninn, við vitum ekki enn þá hvaðan hann kemur, hann kemur seinna en hann er líka sjaldgæfur. Óðinshaninn er síðastur af þessum algengu fuglum,“ segir Jóhann Óli.

Jóhann Óli Hilmarsson, fuglafræðingur, sem er búsettur á Stokkseyri að kíkja eftir fuglum með myndavélina í för.Aðsend



Fleiri fréttir

Sjá meira


×