Erlent

Lögreglukona látin eftir stunguárás nærri París

Kjartan Kjartansson skrifar
Lögreglukonan sem var stungin til bana var óvopnuð og er sögð hafa sinnt skrifstofustörfum. Myndin er úr safni og tengist efni fréttarinnar ekki með beinum hætti.
Lögreglukonan sem var stungin til bana var óvopnuð og er sögð hafa sinnt skrifstofustörfum. Myndin er úr safni og tengist efni fréttarinnar ekki með beinum hætti. Vísir/Getty

Frönsk lögreglukona er látin eftir að árásarmaður vopnaður eggvopni réðst inn á lögreglustöð í bænum Rambouillet, suðvestur af París í dag. Árásarmaðurinn var skotinn og lést á sjúkrahúsi.

Maðurinn er sagður hafa stungið 49 ára gamla óvopnaða lögreglukonu í hálsinn í inngangi lögreglustöðvarinnar síðdegis í dag, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC. Hann er sagður hafa verið 36 ára gamall og hafa flutt til Frakklands frá Túnis fyrir nokkrum árum. 

Ekkert liggur enn fyrir um tilefni árásarinnar. AP-fréttastofan segir að rannsókn beinist meðal annars að því hvort að um hryðjuverk hafi verið að ræða en saksóknari í hryðjuverkamálum segir að embætti sitt taki ekki þátt í henni að svo stöddu.

Jean Castex, forsætisráðherra, og Gérald Darmanin, innanríkisráðherra, komu á vettvang til að kynna sér aðstæður og sýna lögreglufólkinu stuðning.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×