Innlent

„Í guðanabænum þiggið björgina og látið bólusetja ykkur“

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Kári Stefánsson, forstjóri íslenskrar erfðagreiningar.
Kári Stefánsson, forstjóri íslenskrar erfðagreiningar. Vísir/Vilhelm

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, segir bóluefni AstraZeneca gegn kórónuveirunni vera næstum hættulaust og hvetur hann fólk „í guðanabænum“ til að þiggja bóluefni AstraZeneca. Sjálfur hafi hann fengið bóluefnið fyrir nokkrum vikum og hafi ekki hlotið nokkurn skaða af.

„Það má hins vegar ekki gleyma því að það eru engin lyf sem virka á sjúkdóma sem eru með öllu hættulaus og á það sama við um bóluefni. Þess vegna er það kýrskýrt að þegar lyfi eða bóluefni er beitt á tugir milljóna manns þá verða einhverjir fyrir aukaverkunum. Í tilfelli bóluefnis AstraZenica er sá fjöldi algjörlega hverfandi miðað við þann sem á bóluefninu líf sitt og heilsu að þakka,“ skrifar Kári í færslu á Facebook nú í kvöld.

Þá rifjar hann upp að sjálfur hafi hann fengið sprautu af bóluefni AstraZeneca fyrir nokkrum vikum. „Ég lét bólusetja mig með þessu ágæta bóluefni fyrir nokkrum vikum og hlaut af því engan skaða annan en þann að vegna þess að ég var kallaður inn með litlum fyrirvara þá var ég ekki rétt búinn til athafnarinnar og leit út eins og það óálitlega gamalmenni sem ég er á myndum sem voru teknar af athöfninni. Í guðanabænum þiggið björgina og látið bólusetja ykkur þegar boðið,“ skrifar Kári.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hefur tekið í svipaðan streng og Kári og hefur hvatt þá sem fá boð í bólusetningu til að þiggja bóluefnið. Sjálfur verður Þórólfur bólusettur í vikunni með bóluefni AstraZeneca.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×