Erlent

Ákærðir fyrir hatursglæp vegna morðsins á Ahmaud Arbery

Kjartan Kjartansson skrifar
Sakborningarnir þrír, frá vinstri: Travis McMichael, Gregory McMichael og William Bryan. Travis er ákærður fyrir að hafa skotið Arbery þrisvar sinnum með haglabyssu.
Sakborningarnir þrír, frá vinstri: Travis McMichael, Gregory McMichael og William Bryan. Travis er ákærður fyrir að hafa skotið Arbery þrisvar sinnum með haglabyssu. AP/Fangelsið í Glynn-sýslu

Þrír hvítir karlmenn í Georgíu í Bandaríkjunum hafa verið ákærðir fyrir hatursglæp og tilraun til frelsissviptingar í tengslum við morðið á Ahmaud Arbery, svörtum skokkara, í fyrra. Feðgar sem eltu Arbery eru ákærðir fyrir að hafa myrt hann.

Arbery var að skokka í gegnum úthverfi í Brunswick í Georgíu í febrúar í fyrra þegar feðgarnir Travis og Gregory McMichael veittu honum eftirför á pallbíl. Þeir hafa borið því við að þeir hafi grunað Arbery um að hafa staðið að innbrotum í hverfinu og því elt hann þegar þeir komu auga á hann til þess að handtaka hann borgaralega.

Þeir stöðvuðu Arbery við þriðja mann og eftir nokkur orðaskipti skutu þeir hann til bana úti á götu. Þriðji maðurinn, William Bryan, sem slóst í eftirförina með feðgunum tók myndband af atvikinu en það fór síðan sem eldur í sinu um samfélagsmiðla.

Þremenningarnir voru ákærðir fyrir morð, alvarlega líkamsárás og fleiri brot í Georgíu. Nú sæta þeir jafnframt alríkisákæru fyrir hatursglæp, að sögn Reuters-fréttastofunnar. Feðgarnir og Bryan eru ákærðir fyrir að brjóta réttindi Arbery og tilraun til frelsissviptingar. McMichael-feðgarnir eru einnig ákærðir fyrir að beita ofbeldi með skotvopni.

Í ákæru dómsmálaráðuneytis Bandaríkjanna gegn mönnunum þremur eru þeir sakaðir um að hafa beitt valdi og hótunum til að ógna Arbery og trufla réttindi hans til þess að nota almenningsleið vegna kynþáttar hans. Saksóknarar í Georgíu hafa lagt fram sannanir fyrir því að kynþáttahatur kunni að hafa átt þátt í morðinu.

Morðið á Arbery og viðbrögð yfirvalda á staðnum vöktu mikla reiði í fyrra. Enginn var handtekinn vegna málsins í tíu vikur eftir morðið en McMichael eldri er fyrrverandi lögreglumaður. Hreyfing komst ekki á málið fyrr en myndban Bryan lak út.

Mennirnir þrír sitja í fangelsi og eiga næst að koma fyrir dómara í næsta mánuði, að sögn AP-fréttastofunnar.


Tengdar fréttir

Þrír ákærðir fyrir morðið á Ahmaud Arbery

Þrír menn hafa verið ákærðir fyrir morð vegna dauða Ahmaud Arbery sem var skotinn til bana þegar hann fór út að hlaupa í Georgíu í Bandaríkjunum í febrúar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×