Í hugleiðingum veðurfræðings segir að á morgun, föstudag, kólni með norðlægum áttum og að þá sé útlit fyrir að norðanáttin gæti orðið þaulsetin næstu daga.
„Búast má við éljum um landið norðan- og austanvert, en lengst af þurrt og bjart veður sunnan heiða. Viðbúið er að næturfrost verði á mest öllu landinu og hitinn yfir daginn 0 til 4 stig fyrir norðan og austan á meðan að á sunnanverðu landinu ætti hitinn að vera 4 til 8 stig.“
Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á föstudag: Gengur í norðaustan 8-13 m/s. Dálítil él norðan- og austanlands, rigning með köflum um landið sunnanvert, einkum þó SA-lands, en annars þurrt. Hiti frá frostmarki fyrir norðan, upp í 8 stig með suðurströndinni.
Á laugardag: Norðaustan 5-13 og dálítil él norðan- og austanlands, en bjartviðri sunnan heiða. Hiti 0 til 7 stig að deginum, mildast S-lands.
Á sunnudag: Norðaustan og austan 3-10. Skýjað NA- og A-lands, en bjartviðri vestantil. Hiti breytist lítið.
Á mánudag og þriðjudag: Norðlæg átt. Skýjað og úrkomulítið norðantil á landinu, hiti um frostmark. Þurrt og bjart sunnan- og vestanlands með hita að 9 stigum yfir daginn.
Á miðvikudag: Útlit fyrir norðaustanátt með éljum fyrir norðan og austan, en bjartviðri annars staðar. Áfram fremur kalt, en hiti að 7 stigum SV-til að deginum.