Ása Ninna Pétursdóttir, blaðamaður á Vísi, er þáttastjórnandi Fyrsta bliksins. Hún segir þátttökuna hafa farið fram úr björtustu vonum og því verði mikil áskorun að velja fólk í lokahópinn.
Við myndum helst vilja hafa alla, það tók svo mikið af frábæru fólki þátt. Það eina sem okkur vantar núna eru fleiri umsóknir frá eldri karlmönnum. Við erum með flottar og frambærilegar konur sem okkur langar virkilega að ná að para, konur alveg upp í áttrætt.
Hvetja einhleypa karla yfir fimmtugu til að sækja um
Kynjahlutfall umsóknanna var næstum hnífjafnt þó svo að eldri karlmenn hafi greinilega verið tregari til að sækja um. Aðspurð um mögulega ástæðu segir Ása Ninna að það gæti verið að þessi hópur karlmanna haldi að svona raunveruleikaþættir séu meira fyrir yngra fólk.
Þó svo að formlegur umsóknarfrestur sé runninn út vilja aðstandendur Fyrsta bliksins gefa þessum hópi tækifæri til að sækja um í dag og á morgun og freista þess að finna ástina.
Allir einhleypir karlmenn frá fimmtugu til áttræðs eru því hvattir til að sækja um. Hægt er að fylla inn umsókn hér fyrir neðan:
Þetta verður öðruvísi raunveruleikasjónvarp en fólk er vant að sjá. Það er ekki verið að reyna að gera neinn vandræðalegan eða að ýta undir eitthvað drama, segir Ása Ninna.
„Þvert á móti verður þetta skemmtilegt og fallegt. Við viljum að áhorfendur kynnist þátttakendum vel og haldi með þeim. Við ætlum að velja sem fjölbreyttastan hóp af fólki og er það okkar einlæga ósk að við náum að hjálpa einhverjum að finna ástina.“
Veitingastjórinn og lífskúnsterinn Sveinn Rúnar Einarsson verður Ásu Ninnu innan handar í þáttunum og munu tökur hefjast nú í lok maí.
