Innlent

Aðeins um 60 prósent mæting í bólusetningu í dag

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar

Um sextíu prósent mætingarhlutfall var í bólusetningu í Laugardalshöll í dag, að sögn Ragnheiðar Óskar Erlendsdóttur, framkvæmdastjóra hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Hún segir að almennt mæti um áttatíu prósent fólks en hefur ekki skýringar á minni mætingu í dag.

Þrátt fyrir það var slegið met í bólusetningum í dag þegar tæplega þrettán þúsund manns fengu bóluefni frá Astra Zeneca, en þeirra á meðal var fjöldi fólks sem fékk boð í aukaskammta sem urðu eftir.

„Við sáum það að við áttum 200 skammta eftir í lok dags þannig að þá var handagangur í öskjunni að koma þeim út. Þetta voru dálítið margir skammtar þannig að við sendum boð bæði á árganga '74 og jafnvel held ég eitthvað í '75, til að koma síðustu skömmtunum út," segir Ragnheiður.

Hún segir stöðuna í bólusetningum afar góða, til dæmis sé stutt í að búið verði að bólusetja alla forgangshópa.

„Það eru allir karlmenn í forgangshópi búnir að fá boð í bólusetningu en það eru þó nokkrar konur eftir,“ segir hún.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×