Erlent

Gleðskapur á götum úti þegar takmörkunum var aflétt

Kjartan Kjartansson skrifar
Mikil gleði braust út í Barcelona þegar neyðarástandi lauk á miðnætti. Fólk dansaði og trallaði á torgum og ströndum fram eftir nóttu.
Mikil gleði braust út í Barcelona þegar neyðarástandi lauk á miðnætti. Fólk dansaði og trallaði á torgum og ströndum fram eftir nóttu. AP/Emilio Morenatti

Múgur og margmenni þyrptist út á götur spænskra borgara eftir að sex mánaða löngu neyðarástandi vegna kórónuveirufaraldursins var aflétt þar á miðnætti. Veitingastaðir mega nú vera opnir lengur, ferðatakmörkunum á milli héraða hefur verið aflétt og slakað hefur verið á samkomutakmörkunum.

Neyðarástandið sem spænska ríkisstjórnin lýsti yfir fyrir hálfu ári hefur gert einstökum sjálfstjórnarhéruðum kleift að grípa til harðra aðgerða til þess að hefta útbreiðslu kórónuveirufaraldursins. Ríkisstjórn Sósíalistaflokksins ákvað að framlengja það ekki og runnu takmarkanirnar út á miðnætti.

AP-fréttastofan segir að fagnað hafi verið á götum úti víða um landið þegar klukkan sló miðnætti. Í höfuðborginni Madrid vísuðu lögreglumenn fólki frá Puerta del Sol, aðaltorgi borgarinnar en þar líktust fagnaðarlætin hefðbundnu næturlífi eins og það tíðkaðist fyrir faraldurinn. Í Barcelona söfnuðust unglingar og ungmenni saman á torgum og ströndum.

Kórónuveirusmitum hefur fækkað á Spáni að undanförnu. Þar hafa 198 tilfelli á 100.000 íbúa greinst undanfarna fjórtán daga. Í sjálfstjórnarhéraðinu Madrid og í Baskalandi er nýgengi veirunnar tvöfalt hærra. Mikið álag er enn á sjúkrahúsum vegna faraldursins. Eitt af hverjum fimm gjörgæslurúmum í landinu er nú undirlögð fyrir sjúklinga með Covid-19.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×