Erlent

Kynhlutlaust mál bannað með lögum

Snorri Másson skrifar
Jean-Michel Blanquer er menntamálaráðherra í ríkisstjórn Emmanuel Macron, sem er flokksbróðir hans.
Jean-Michel Blanquer er menntamálaráðherra í ríkisstjórn Emmanuel Macron, sem er flokksbróðir hans. Vísir/EPA

Menntamálaráðherra Frakka hefur lögfest við því blátt bann að í skólum landsins sé stuðst við kynhlutlaust mál í námsefni fyrir börn. Hann segir reglurnar of flóknar fyrir þau.

Það hefur verið umdeilt um margra ára skeið í Frakklandi að nota punkta inni í miðju orði til þess að gefa sérstaklega til kynna að í orðinu felist allar útgáfur til dæmis tiltekins starfsheitis.

Dæmi má taka úr þingheimi: „député“ er þingmaður. „Députée“ er þingkona. „Députés“ væri hin hefðbundna fleirtala, sem íhaldssamari Frakkar myndu segja að næði einnig yfir þingkonurnar.

„Député.e.s“ er hins vegar nýja útgáfan, sem nú er óheimil í skólum samkvæmt lögum. Í henni áréttar punkturinn svo ekki verður um villst að þarna inni séu líka þingkonur.

Mörgum Frökkum þykir punktinum ofaukið, eins og menntamálaráðherranum, Jean-Michel Blaquer. Er hann ræddi málið fyrir menntamálanefnd franska þingsins sagði hann punktakerfið of flókið og raunar svo flókið að það myndi aftra skilningi barna á tungumálinu.

Ógerningur sé að miðla franskri tungu til ungu kynslóðarinnar ef punktarnir eru þarna að þvælast fyrir, svo ekki sé talað um fyrir lesblinda, hefur ráðherrann sagt.

Alþjóðlegt deilumál

Málið veldur verulegum titringi hjá Frökkum og margir eru ósáttir við menntamálaráðherrann. Feminískir stjórnmálamenn á vinstri væng segja þetta óhæfu og telja jafnréttismál að hátta málfræðinni á þennan veg.

Klofningurinn er ekki ósvipaður þeim sem þegar er uppi í Þýskalandi, þar sem mörgum er í nöp við stjörnu (*) sem klýfur fjölda titla til þess að árétta að konur séu þar inni. Þar er „Student“ í fleirtölu ekki aðeins „Studenten“ heildur „Student*innen“ og raunar frekar „Studierenden“. Þetta er mjög útbreidd notkun í Þýskalandi.

Í íslensku hefur hvorugkynsmynd ýmissa fornafna sótt mjög í sig veðrið á síðustu misserum, þar sem ekki er lengur talað um að „allir“ eða „margir“ hafi til dæmis farið í bólusetningu, heldur „öll“ eða „mörg.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×