Körfubolti

Þingmaður setur út á „sora“ KR-inga

Sindri Sverrisson skrifar
Stuðningsmenn KR létu vel í sér heyra á Hlíðarenda á sunnudagskvöld.
Stuðningsmenn KR létu vel í sér heyra á Hlíðarenda á sunnudagskvöld. vísir/bára

Stuðningsmenn KR kölluðu Kristófer Acox, fyrrverandi lykilmann liðsins, Júdas í fyrsta leik einvígis Vals og KR í körfubolta karla. Þingmaðurinn Helga Vala Helgadóttir lýsti hrópum stuðningsmannanna sem „sora“.

Það var ljóst frá upphafi að einvígi Vals og KR í 8-liða úrslitum Dominos-deildar karla í körfubolta yrði dramatískt. Fyrsti leikur stóð heldur betur undir væntingum en framganga stuðningsmanna KR vakti einnig athygli.

Fyrsti leikur einvígisins var á Hlíðarenda og eftir framlengingu fögnuðu KR-ingar dísætum sigri. Vinna þarf þrjá leiki til að komast áfram í undanúrslit en liðin mætast í DHL-höllinni annað kvöld.

Uppgjör Reykjavíkurliðanna er ekki síst áhugavert í ljósi þess hve sterk tengsl eru á milli leikmanna. Þjálfarar liðanna störfuðu áður fyrir félag mótherjanna, og Pavel Ermolinskij, Jón Arnór Stefánsson og Kristófer Acox hafa allir farið frá KR yfir til Vals á síðustu tveimur árum.

Kristófer greindi frá því í viðtali við Vísi síðastliðið haust að KR skuldaði honum milljónir króna vegna vangoldinna launa. Hann kvaðst hafa gefið KR kost á að greiða upp skuldina og gera við sig nýjan samning en á endanum séð sig knúinn til að rifta samningi við félagið.

Hópur stuðningsmanna KR er greinilega ekki búinn að fyrirgefa Kristófer vistaskiptin og í leiknum á Hlíðarenda mátti heyra þann hóp kyrja „Júdas! Júdas!“ þegar Kristófer var með boltann. Þetta má heyra í myndbandinu hér að neðan.

Klippa: Stuðningsmenn KR kölluðu Kristófer Júdas

Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar og móðir Valskonunnar Ástu Júlíu Grímsdóttur, hafði gaman af leiknum en var ekki hrifin af hrópum stuðningsmanna KR. Hún skrifaði á Twitter:

„Þvílík skemmtun og bæði lið til fyrirmyndar. Eini skugginn var sorinn sem barst úr stuðningsmönnum KR. Vonandi hugsa þau sig aðeins um næst hvort rétt sé að úthúða fólki sem réð sig til vinnu, skilaði framúrskarandi starfi, fékk ekki borgað og réð sig því á annan stað.“


Domino's-deildirnar í körfubolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Domino's-deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×